Enn rætt um veiðigjöld

04.06.2012 - 18:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Ekkert hefur verið samið um framhald á þingstörfum og afgreiðslu einstakra mála. Búist er við óformlegum viðræðum milli þingforseta og forystumanna flokkanna. Þingmenn ræða enn veiðigjöld og eru afar skiptar skoðanir milli flokkanna.

Annar dagur 2. umræðu um frumvarp sjávarútvegsráðherra er að kvöldi kominn. Hvergi nærri sér fyrir endann á umræðunni og enn eru 20 þingmenn á mælendaskrá.

Mikill ágreiningur er um frumvarpið milli stjórnar og stjórnarandstöðu, stjórnarliðar segja að verið sé að leiðrétta skekkju í kerfinu, hingað til hafi gróðanum verið rakað saman en ekki skilað sér út í samfélagið. Ólína Þorvarðardóttir situr í atvinnuveganefnd.

„Ein atvinnugrein í landinu hefur haft forréttindaaðgang að þjóðarauðlind, nýtt hana til hins ítrasta. Án þess þó að arðurinn af nýtingu þeirrar auðlindar hafi skilað sér út í samfélagið sjálft, inn í lífæðar samfélagsins.“

Eftir breytingar er áætlað að veiðigjaldið skili 15 milljörðum á næsta ári. Stjórnarandstaðan segir upphæðina allt of háa og gjaldið muni einfaldlega verða alltof íþyngjandi fyrir útgerðina. Talað er um aðför að greininni og ekkert sé hlustað á aðvörunarorð.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hafði uppi varnaðarorð.

„Það er verulegt áhyggjuefni ef að menn ætla að halda áfram þannig á þessu máli, að litið verði fram hjá öllum viðvörunarorðum og ábendingum, hvort heldur sem er sérfræðinga, þeirra sem starfa í greininni eða stjórnmálamanna úr öðrum flokkum, einfaldlega af því að þeir eru ekki í stjórnarliðinu. Nú þá verða ekki miklar úrbætur gerðar á þessu máli og þá er grunnatvinnugrein þjóðarinnar veruleg hætta búin.“

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi