Enn óvissa um mörg gengislán

28.10.2012 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd:
Enn ríkir mikil óvissa um lán margra lántakenda þrátt fyrir dóm Hæstaréttar 18. október. Viðbrögð bankanna við dómnum eru smám saman að skýrast. Það getur hins vegar tafist að úrlausn fáist í málum þeirra sem þáðu úrræði sem bankar og fjármálafyrirtæki buðu.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra krafðist þess á flokksstjórnarfundi Samfylkingar í gær að bankar og fjármálastofnanir einhentu sér í endurútreikninga á erlendum lánum heimilanna. Hún sagði að í ljós dóms Hæstaréttar 18. október síðastliðinn væru allar grundvallarforsendur endurútreikninga komnar á borðið. Frekari undansláttur yrði ekki liðinn. Fjármálastofnanir eru mislangt komar í vinnu vegna dómsins og misjafnt hvernig þær túlka hann.

Íslandsbanki er byrjaður að endurreikna ólögleg gengistryggð lán sem bankinn telur að falli undir dóminn. Þau að minnsta kosti 6.000, mest megnis bílalán og bíla- og kaupleigusamningar en ekki einvörðungu. Forsvarsmenn Íslandsbanka telja hins vegar að stærstur hluti húsnæðislána bankans falli ekki undir dóminn, þar sem búið hafi verið að endurreikna þau áður en Hæstiréttur staðfesti lögmæti lána bankans í júní.

Arionbanki hyggst endurskoða endurútreikning gengistryggðra lána bæði fyrirtækja og einstaklinga, að minnsta kosti yfir það tímabil þegar lánin voru í skilum samkvæmt upphaflegum lánaskilmálum. Þetta eru aðallega fasteignalán en engin bílalán. Hins vegar sé ekki fyllilega ljóst hvað skuli gera í málum þeirra lántakenda sem fengu frystingu eða greiddu ákveðna upphæð af hverri milljón. Nú sé unnið að því að skýra með hvaða hætti sé rétt að nálgast endurútreikning í þeim tilfellum.

Drómi, sem fer með lán fyrrverandi viðskiptavina Frjálsa fjárfestingabankans og SPRON, hefur sagst hefja nú þegar endurútreikning á þeim lánum þar sem niðurstaða Hæstaréttar hafi beint fordæmisgildi. Drómi hvetur aðra lántaka með gengistryggð lán til að greiða áfram heimsenda greiðsluseðla þar til staða þeirra skýrist. Þó er ljóst að þeir sem fóru inn í einhvers konar úrræði geta þurft að bíða annarra dóma áður en þeirra mál skýrast.

Lýsing segir engin sinna lána falla undir dóm Hæstaréttar og Landsbanki er enn að vinna viðbrögð við dómnum og hefur ekki gefið út hvaða lán falli þar undir.

Talsmenn og forsvarsmenn banka og fjármálastofnana sem fréttastofa hefur rætt við segja allir að staðið verði við fyrirheit um að fólk hafi ekki fyrirgert rétti sínum til betri niðurstöðu með því að nýta sér þau úrræði sem boðið var upp á. Þó er ljóst að staða þessa fólks er enn sem komið er óljós.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi