Enn og aftur útlendingur sem talar ekki málið

24.01.2016 - 20:20
Mynd: Rætur / RÚV
Elsa Dung Ínudóttir kom til Íslands árið 1990 í hópi rúmlega þrjátíu víetnamskra flóttamanna. Þá var hún sex ára gömul. Í dag vinnur hún við heimaþjónustu í heimabæ sínum Kópavogi. Aðspurð hvort hún mæti einhvern tíma tortryggni við fyrstu kynni segist hún finna vel fyrir því - en það breytist yfirleitt þegar í ljós komi að hún tali reiprennandi íslensku.

Elsa er mjög ánægð í vinnunni sinni enda segist hún eiga þar marga vini sem hún hlakki á hverjum degi til að heimsækja. Hún líkir starfinu sínu við skólagöngu því þar fái hún tækifæri til þess að kynnast eldra fólki og læra af því. Hún segir nauðsynlegt að ungt fólk læri af þeim sem eldri eru því að ungt fólk í dag hafi það í rauninni allt of gott. 

Elsa segist stundum finna fyrir svolítilli tortryggni þegar hún heimsækir fólk í fyrsta sinn. „Já, reyndar. Ég kannski skil þau rosalega vel. Fólk í rauninni horfir á mig sem öðruvísi útlit og enn segja þau: Enn og aftur einn útlendingur sem talar ekkert íslensku.“ Um leið og í ljós komi að hún tali raunar íslensku fái hún allt annars konar viðmót.

Elsa var á meðal viðmælenda í þættinu Rótum sem sýndur var á RÚV í kvöld. Í Rótum er fjallað um fólk sem á rætur um allan heim en hefur sest að á Íslandi. 

sigridurh's picture
Sigríður Halldórsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi