Enn langt í að kjarasamningar náist

20.03.2014 - 21:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður Félags framhaldsskólakennara segir langt í land með að kjarasamningar náist. Hún segir að verði nám til stúdentsprófs skorið niður muni undirbúningi íslenskra nemenda undir frekar nám hraka verulega.

Aðalheiður Steingrímsdóttir, fráfarandi formaður Félags framhaldsskólakennara, vandaði menntamálaráðherra ekki kveðjurnar í ræðu sem hún flutti á aðalfundi félagsins sem hófst í dag, á fjórða degi verkfalls.

„Flumbrugangurinn hjá menntamálaráðherra og andvaraleysið í sambandi við menntamálin og baráttu okkar nær alveg nýjum hæðum þessa dagana,“ sagði Aðalheiður. „Eina framtíðarsýn ráðherra til handa skólunum eru markmið að stytta námstíma og meiri framleiðni.“

Hún segir að engin mikilvæg mál séu farin að skýrast, þótt samningaviðræðurnar mjakist áfram. „Við erum ekki komin nálægt því að geta sagt að við séum að ná kjarasamningum. Ég myndi álíta að það væri talsvert langt í land með það.“

Ný stjórn tekur við eftir aðalfundinn. Samninganefndin mun þó haldast óbreytt með Aðalheiði í broddi fylkingar, en nýi formaðurinn, Guðríður Arnardóttir, bætist í hópinn. Aðalheiður segir enn vanta útskýringar frá ráðherra á því hvernig stytta eigi námstímann.

„Við erum að sjálfsögðu ekki á móti því að breytingar séu ræddar. Skárra væri það nú,“ segir hún. „En við höfum sagt það til marga ára að þetta sé ekki forgangsatriði í íslenskum menntamálum.“

Nær sé að opna á milli skólastiga, efla námsframboð og auka stuðning svo færri nemendur hætti í námi. Það þurfi að hafa lengd námsársins í huga þegar horft sé til annarra landa. Sú fimm daga lenging sem gert er ráð fyrir í nýjum framhaldsskólalögum sé ekki nóg ef stytta á heildarnámstímann á við nágrannalöndin. Til þess verði að lengja skólaárið enn meira. Aðalheiður bendir á að framhaldskólanám hér sé sveigjanlegt og margir klári stúdentspróf á þremur og þremur og hálfu ári. Það henti þó aðeins sterkum nemendum.

Hún spyr, hvað eigi að gera fyrir hina. „Við höfum áhyggjur af því, og við höfum áhyggjur af því að námið verði hugsanlega skorið niður og þá erum við í vondum málum,“ segir Aðalheiður.

Hún óttast um afdrif íslenskra nemenda sem fara í háskólanám í útlöndum. „Og ég vil leyfa mér að efast stórlega að ef að íslenskt nám til stúdentsprófs verði skorið niður þá mun undirbúningi nemenda hraka verulega,“ segir Aðalheiður.