Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Enn er allt ófrágengið um skiptingu ráðuneyta

Fyrsti formlegi fundur leiðtoga Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs um myndun ríkisstjórnar, 14. nóvember 2017
Leiðtogar Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks á fundi í Alþingishúsinu. Mynd: Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir - RÚV
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins telur eðlilegt að Sjálfstæðismenn fái fleiri ráðherrastóla í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar ef Katrín Jakosdóttir verður forsætisráðherra. Hún hefur ekki hug á að fjölga ráðherrum eða ráðuneytum í þeirri ríkisstjórn.

Viðræður flokkanna þriggja um myndun ríkisstjórnar var fram haldið í dag. Formenn allra flokkanna segja að þær gangi vel og miði í rétta átt. Allt taki það þó sinn tíma. Þeir telja hins vegar vel koma til greina að ljúka gerð málefnasamnings um helgina og í framhaldinu verði hægt að bera hann undir þingflokka og flokksstofnanir.

Bjarni Benediktsson segir að farið sé frá einu máli til þess næsta og horft sé breitt yfir sviðið. Til þess þurfi þau tíma og vinnufrið. En er gengið út frá því að Katrín Jakobsdóttir verði forsætisráðherra?

„Það gæti verið að við næðum að ljúka þeirri vinnu um helgina. Ég vona það,“ svarar Bjarni.

Katrín segir að byrjað hafi verið í gær að ræða skiptingu ráðuneyta og ráðherrastóla. Það mál hafi ekkert verið rætt í dag og verði tekið upp síðar. Hún kveðst ekki hafa hug á að fjölga ráðherrum eða ráðuneytum frá því sem nú er.