Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Enn enginn boðaður á Bessastaði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - rÚV
Engar formlega viðræður um stjórnarmyndun eru hafnar og enginn úr forystu stjórnmálaflokkanna hefur enn verið boðaður til Bessastaða. Talið er líklegast að viðræður hefjist milli Framsóknar, Sjálfstæðisfloks og VG. Alþingi mun hefja störf í síðasta lagi öðru hvoru megin við mánaðamót segir forseti Alþingis, hvort sem ríkisstjórn hefur verið mynduð eða ekki.

Viðkvæm staða

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir þingfréttaritari segir að fólk líti svo að á staðan í viðræðunum óformlegu sé viðkvæm. Allt sé opið og allir að tala við alla, en að sennilegast sé talið að formlegar viðræður muni hefjast á milli Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Á meðan sé forseti Íslands ekki að trufla það samtal þótt margir telji líklegast að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokks fái umboð frá forseta sem formaður stærsta stjórnmálaflokksins á þingi. Jóhanna Vigdís bendir þó á að þetta séu vangaveltur og að atburðarásin geti breyst snögglega. 

Þing þarf að koma saman um mánaðamót

Steingrímur J. Sigfússon, sem nú er forseti Alþingis, hélt fund með þingflokksformönnum í morgun. Þar var fjallað um praktísk mál sem snúa að þinginu, til að mynda kosningu í fastanefndir þingsins. Steingrímur segir að þingið þurfti að hefja störf í síðasta lagi um næstu mánaðamót. Fyrir áramót þarf þingið að afgreiða fjárlög og fjáraukalög. Steingrímur bendir jafnframt á að þingið verði að takast á við samninga um notendastýrða persónulega aðstoð - NPA. 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
ragnhildurth's picture
Ragnhildur Thorlacius
Fréttastofa RÚV