Enn eitt áfallið fyrir íbúa Bakkafjarðar

04.04.2019 - 15:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Gjaldþrot fiskvinnslufyrirtækisins Toppfisks er áfall fyrir Bakkafjörð, að sögn Elíasar Péturssonar, sveitarstjóra Langanesbyggðar. Fyrirtækið var með starfsemi þar og í Reykjavík. Sex starfsmenn á Bakkafirði misstu vinnuna við gjaldþrotið.

„Þetta hefur náttúrulega töluverð áhrif og þá sérstaklega á byggðarlagið Bakkafjörð. Þarna er lítið samfélag og hvert fyrirtæki mjög áríðandi. Þar af leiðandi hefur þetta mikil áhrif á það byggðalag og einhver áhrif hefur það á Langanesbyggð í heild líka,“ segir Elías. 

Atvinnuleysi í Langanesbyggð mældist 9,18 prósent í febrúar, sem var þá mesta atvinnuleysi á landinu. 11 starfsmenn HB Granda á Vopnafirði var sagt upp í október og bjó meirihluti þeirra á Bakkafirði. Þá hafði loðnubresturinn í ár töluverð áhrif í sveitarfélaginu. „Það er búið að ríða á hvert áfallið á fætur öðru en á sama tíma þá eru í hverri stöðu líka tækifæri. Íbúar á þessu svæði hafa lifað í gegnum tíðina alls konar hafísár og hremmingar þannig að það er engin uppgjöf í okkur en klárlega er þetta áfall,“ segir sveitarstjórinn.

Bakkafjörður er nú með í verkefni Byggðastofnunar, Brothættar byggðir, og þar var haldið fjölmennt íbúaþing á dögunum. Þar ræddu íbúar ýmsar hugmyndir eins og stofnun fiskvinnslu. Íbúar telja einnig brýnt að opna leikskólann og grunnskólann á ný en þeim var lokað árið 2016. Elías segir ekkert annað að gera í stöðunni en að vinna sig út úr henni. „Það er ljóst að þetta er ákveðið högg en það eru allir ákveðnir í að finna leiðina út.“ Íbúar í Langanesbyggð voru 504 í byrjun ársins og hefur fækkað. Til samanburðar voru þeir 621 árið 1999. 

Fréttin hefur verið leiðrétt. Áður sagði að sveitarfélagið Langanesbyggð væri í verkefninu Brothættum byggðum. Hið rétta er það er Bakkafjörður, sem er hluti af Langanesbyggð, sem tekur þátt í verkefninu.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi