Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Enn ein rósin í hnappagat Hrúta

Enn ein rósin í hnappagat Hrúta

07.11.2015 - 11:46

Höfundar

Hrútar, kvikmynd Gríms Hákonarsonar, er ein sex mynda sem tilnefnd er til evrópsku kvikmyndaverðlaunanna sem verða afhent um miðjan næsta mánuð. Hrútar hefur unnið til 13 verðlauna á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum.

Þetta er Sigurður Sigurjónsson í kvikmyndinni Hrútum Tilkynnt var á evrópsku kvikmyndahátíðinni í Sevilla á Spáni að hún hefði verið tilnefnd sem mynd ársins. Þetta er í 28. sinn sem verðlaunin eru veitt en þau verða afhent 12. desember í Berlín. 52 kvikmyndir komu til greina, meðal annars Fúsi eftir Dag Kára Pétursson.

Íslendingar hafa ekki verið sigursælir á þessari hátíð. 1991 hlaut Hilmar Örn Hilmarsson verðlaunin fyrir tónlist sína við Börn Náttúrunnar og níu árum seinna var Björk Guðmundsdóttur valin leikkona ársins fyrir Dancer in The Dark.

Velgengni Hrúta hefur verið mikil síðan myndin var verðlaunuð á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Hún hefur unnið til 13 verðlauna á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum. Hún er framlag Íslands til Óskarsverðlauna. Þar etur hún kappi við kvikmyndir frá 81 landi um fimm tilnefningar. Um miðjan næsta mánuð verður tilkynnt hvaða níu myndir eiga möguleika á tilnefningu.

Hrútar segir frá tveimur bræðrum í afskekktum dal á Norðurlandi sem hafa ekki talast við áratugum saman.