Enn beðið eftir aðgerðum í Grímsey

01.02.2016 - 18:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íbúaþingi, sem halda átti í Grímsey um helgina í verkefninu Brothættar byggðir, var frestað þar sem aðgerðum til að aðstoða byggð í eynni er ekki lokið. Beðið er eftir niðurstöðum úr samningviðræðum Íslandsbanka og útgerða í Grímsey.

Það var í nóvember síðastliðinum sem ríkisstjórnin ákvað að ráðist yrði í sérstakar aðgerðir til að sporna við neikvæðri byggðaþróun í Grímsey. Aðgerðirnar voru ákveðnar samkvæmt tillögum starfshóps sem skipaður var af þessu tilefni.

Íbúaþingi frestað
Eitt þessara atriða var að koma Grímsey inn í verkefnið „Brothættar byggðir" hjá Byggðastofnun. Fyrsta íbúaþingið í því verkefni var áætlað um nýliðna helgi. Því var frestað þar sem hinar opinberu aðgerðir, sem samþykktar voru fyrir um tveimur og hálfum mánuði, eru ekki komnar til framkvæmda.

Beðið eftir Íslandsbanka
Þar er nú beðið eftir niðurstöðum úr viðræðum útgerðarmanna í Grímsey og Íslandsbanka. Matthías Imsland, aðstoðarmaður forsætisráðherra, segir að reglulega sé fylgst með gangi mála þar. Hann segist vongóður um að það sem þar er lagt upp með gangi eftir. Aðrar aðgerði fylgi síðan í kölfar samkomulags bankans og útgerðarfyrirtækjanna.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi