Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Enn að berast frásagnir um óviðeigandi hegðun

17.09.2018 - 20:35
Mynd: RÚV / RÚV
Borgarfulltrúunum Hildi Björnsdóttur og Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, hefur síðan fyrir helgi borist nokkur fjöldi frásagna af óviðeigandi hegðun gagnvart starfsfólki Orkuveitu Reykjavíkur. Rætt var við þær í Kastljósi kvöldsins. Bjarna Má Júlíussyni, framkvæmdastjóra ON, var vikið frá störfum í síðustu viku vegna óviðeigandi tölvupósts sem hann sendi samstarfskonum sínum.

Áslaug Thelma Einarsdóttir, fyrrverandi forstöðumaður einstaklingsmarkaðar hjá ON, kveðst ítrekað hafa kvartað undan framkomu Bjarna Más í 18 mánuði. Henni var sagt upp störfum í síðustu viku. Í dag tilkynnti forstjóri OR svo að hann myndi tímabundið víkja.

„Í kjölfar þessa máls er mér að berast talsvert magn af upplýsingum og frásögnum sem eru að teikna upp ákveðna mynd af skaðlegri vinnustaðamenningu. Mér finnst full ástæða til að kortleggja það hvort staðan sé eðlileg,“ sagði Hildur í Kastljósi. Hún á sæti í stjórn OR.

Þórdís Lóa, formaður borgarráðs, tók í sama streng. „Ég hef heyrt ýmislegt síðan á föstudag. Það eru bara sögur, ég get ekki sagt neitt meira um það. Ég held að þetta mál hafi vakið upp ákveðna undiröldu um þessi mál á ýmsum stöðum á landinu. Við verðum að fylgja þessum málum eftir alla leið.“

Báðar töldu þær rétt af forstjóra Orkuveitunnar að víkja frá störfum. Stjórn fyrirtækisins lýsti yfir stuðningi við forstjórann fyrir helgi og segir Hildur að það hafi verið ótímabært. „Eins og málið var og er statt þá er það ekki alveg upplýst. Mér fannst því ekki tímabært að lýsa yfir stuðningi eða trausti við neinn aðila þessa máls,“ segir Hildur. 

Varðandi uppsögn Áslaugar Thelmu, þá sagði Hildur brýnt að skoða hvort hún hafi verið réttmæt. Hún hefur kallað eftir upplýsingum um uppsögnina.