Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Engir sléttbakskálfar í ár

27.02.2018 - 04:26
Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Engir sléttbakskálfar komu í heiminn eftir síðustu fengitíð og sléttbaksstofninn mjakast því enn í átt til útrýmingar. Aðeins um 430 Íslandssléttbakar eru taldir synda um heimsins höf. Sléttbakurinn kelfir að jafnaði um þetta leyti en sá tími er nú nokkurn veginn liðinn og ekki vitað til þess að nokkur kálfur hafi bæst í hópinn, en vísindamenn hafa fylgst giska grannt með viðgangi sléttbaksins síðustu áratugi.

Í fyrra drápust hins vegar fleiri sléttbakar en nokkru sinni síðan farið var að fylgjast náið með þessum ört minnkandi stofni á níunda áratug síðustu aldar. Bandarískir og kanadískir sérfræðingar vöruðu við því haustið 2017 að sléttbakurinn stefndi hraðbyri í átt til útrýmingar, ef ekki yrði að gert. Af þeim 430 hvölum sem enn eru uppi eru einungis um 100 frjóar kýr.

„Ef við höldum svona áfram verða þessar 100 kýr horfnar eftir 20 ár,“ hefur breska blaðið The Guardian eftir Mark Baumgartner, sjávarlíffræðingi við Woods Hole hafrannsóknastofnunina í Massachusetts. Ef ekkert verði að gert mun stofninn þannig verða endanlega dæmdur til útrýmingar í kringum árið 2040.

Gegndarlaus ofveiði á árum áður gekk mjög nærri stofninum þar til hann var alfriðaður 1935. Eftir það hélst hann lengi vel í jafnvægi,  var afar lítill en minnkaði ekki til muna fyrr en á allra síðustu árum að því er talið er.  Eru það helst ýmiskonar veiðarfæri á kjörsvæðum sléttbaksins við Ameríkustrendur sem ógna honum. 10 ára kýr fannst dauð undan ströndum Virginíu í janúar, flækt í veiðarfæri. Þetta var fyrsti, dauði sléttbakurinn sem fundist hefur í ár, en í fyrra drápust minnst 18 dýr.

Yfir 80 prósent allra dauðra sléttbaka, sem drepist hafa ótímabærum dauða á síðustu misserum, hafa flækst í fiski- og veiðarfæralínur ýmiskonar. Þar eru línur sem liggja frá merkibaujum í humargildrur við strendur Nýja-Englands skæðastar. Baumgartner segir að viðgangur sléttbaksstofninn hafi verið þokkalegur miðað við aðstæður þar til fyrir um það bil sjö árum.

Þá fóru humarveiðimenn vestra að nota mun sterkari línur en áður milli gildru og bauju. Hvalir sem flæki sig í slíkum línum eigi því mun erfiðara með að losa sig nú orðið. Sumir drepist á staðnum, aðrir meiðist og geti ekki synt almennilega, sem verður til þess að þeir svelta og horast jafnvel svo mikið að kýrnar verði ófrjóar.

Baumgartner brýnir stjórnvöld til að setja reglur um veiðarfæri á kjörsvæðum sléttbaksins og veiðarfæraframleiðendur til að finna lausnir, sem gera humar- og krabbaveiðimönnum fært að finna og sækja gildrur sínar, án þess að festa baujur við þær með línum eða reipum. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV