Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Engir nýir bílar seljast í Danmörku

29.08.2017 - 13:40
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Sala nýrra bíla í Danmörku stöðvaðist nánast í síðustu viku. Þá birti dagblaðið Politiken frétt um að ríkisstjórnin ætlaði að lækka álögur á bíla, svokallað skráningargjald, registreringsafgift. Ríkisstjórnin hefur hvorki viljað neita né staðfesta fréttirnar og á meðan seljast engir nýir bílar í Danmörku.

Skráningargjöld hafa verið á annað hundrað prósent og því hærri sem bíllinn er stærri og flottari. Samkvæmt frétt Politiken á nú aðeins að vera eitt skráningargjald sem verður eitt hundrað prósent. En ekki mun eining um þetta og Danski þjóðaflokkurinn er ekki hlynntur því að skráningargjöldin verði flatur skattur að því er Dennis Flydtkjar, talsmaður flokksins í skattamálum, sagði við Berlingske. Danska stjórnin er í minnihluta á þingi og verður því að reiða sig á stuðning annarra flokka til að koma málum í gegn. Danski þjóðarflokkurinn hefur verið helsti stuðningsflokkur stjórnarinnar.

Sunnudagar miklir bílasöludagar en ekki nú

Gitte Seeberg, framkvæmdastjóri Bílgreinasambands Danmerkur, sagði við Berlingske að bílasölur hafi miklar áhyggjur af stöðunni. Algengt sé að Danir kaupi bíla um helgar en svo hafi ekki verið nú. Nauðsynlegt sé að ákvörðun um skattlagningu bíla sé tekin fljótt. Seeberg vill raunar að tekið verði tillit til bensíneyðslu, þyngdar, útblásturs og öryggis þegar skráningargjöldin verða ákveðin. Félag danskra bifreiðaeigenda, FDM, er meðmælt lækkun bifreiðaskatta. Danmarks Radio segir að verði skráningargjöldin lækkuð verði nýir bílar mun ódýrari en nú er.

Hluti af stærri skattabreytingum

Breytingar á skattlagningu bíla er hluti af umtalsverðum breytingum á skattkerfinu í Danmörku sem ríkisstjórnin hyggst kynna á morgun. Þá taka við samningaviðræður á þingi svo vera kann að það dragist að breyta skattlagningu á bíla.

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV