Engir hveitibrauðsdagar framundan

01.12.2017 - 11:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkisstjórnin mun ekki eiga neina hveitibrauðsdaga því lausir samningar eru við stóra hópa opinberra starfsmanna, segir formaður Samtaka atvinnulífsins. Formaður BSRB fagnar því að í stjórnarsáttmála sé boðað samráð við aðila vinnumarkaðarins.

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, segir að ekki sé margt fast í hendi í ríkisstjórnarsáttmálanum þótt margt sé þar sagt. Henni líst ágætlega á sáttmálann og það samráð við aðila vinnumarkaðarins sem þar er boðað. „Og ekki síður samtalið varðandi samfélagið í heild sinni þar sem skiptir miklu máli að komist að fleiri raddir til að finna bestu leiðir sem þar eru færar,“ segir hún. „Sáttmálinn er býsna almennur og tæpir á ýmsu og ýmislegt sem vantar sem hefði verið gott að sjá betur og meira en ég geri ráð fyrir því að það sé vegna þess að það eigi að eiga það samtal sem þarf til að finna bestu lausnirnar,“ segir Elín Björg.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, fagnar því að málefni vinnumarkaðarins séu sett í forgrunn í nýjum stjórnarsáttmála, enda sé rík ástæða til þess. „Ríkisstjórnin mun ekki eiga neina hveitibrauðsdaga á næstu misserum enda liggur fyrir að það eru lausir samningar við stóra hópa opinberra starfsmanna,“ segir Halldór. „Hvað varðar fyrirheit um skattalækkanir þá tökum við auðvitað undir þau. Það liggur fyrir að flokkarnir þrír lýstu því yfir í aðdraganda kosninga að þeir myndu lækka tryggingagjald þannig að ég hef litið svo á og samtök atvinnulífsins að við þau fyrirheit verði staðið og að sama skapi varðandi mögulega lækkun á neðra þrepi tekjuskatts einstaklinga þá ber að fagna því og get ég sýnt því skilning að því verði spilað út samhliða kjarasamningum á næstu misserum,“ segir Halldór.

Hann segir að mest ríði á að ná pólitískum stöðugleika eftir umrótin að undanförnu. „Aðalatriðið er að atvinnulífið og fólkið í landinu fái vinnufrið til þess að halda áfram að bæta hag allra Íslendinga,“ segir hann.

 

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi