Enginn urðunarstaður í augsýn fyrir borgina

06.09.2019 - 08:30
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Á næsta ári rennur út svæðisáætlun sem sveitarfélög á Suðvesturlandi gerðu með sér árið 2009. Þá verður urðun sorps hætt á Álfsnesi, sem er rétt utan höfuðborgarinnar. Ekki liggur fyrir með hvaða hætti urðunarmálum verður háttað þegar sú áætlun rennur út.

Innflutningur á plasti hefur aukist seinustu ár þrátt fyrir að neytendur séu að verða meðvitaðri um skaðsemi þess. Samkvæmt tölum frá Úrvinnslusjóði hefur innflutningur á plastumbúðum aukist um rúmlega sjö prósent síðustu þrjú ár. Úrvinnslusjóður sér um að leggja úrvinnslugjald á plastumbúðir og greiða fyrir söfnun og úrvinnslu þeirra. 

Björn H. Halldórsson framkvæmdastjóri Sorpu segir að möguleikar höfuðborgarbúa til flokkunar séu miklir. „Íbúar höfðborgarsvæðisins standa sig almennt mjög vel þegar kemur að flokkun og endurvinnslu þó örugglega megi gera betur. Hvað varðar samanburð við aðrar þjóðir til dæmis Norðurlandaþjóðir þá stöndum við okkur vel þegar kemur að efnisendurvinnslu. Munurinn liggur aðallega í því að erlendis, að minnsta kosti í Norður-Evrópu, eru brennslustöðvar sem vinna orku úr þeim úrgangi sem við almennt urðum,“ segir hann.

Plast í heimilissorpi dregist saman

Í ársskýrslu Sorpu fyrir árið 2018 kemur fram að plast í úrgangi frá heimilum til urðunar dróst saman frá 2016-2018, úr rúmlega 23 prósentum í tæp 17 prósent.

Sveitarfélög á Vesturlandi eiga jörðina Fíflholt þar sem úrgangur frá landshlutanum er urðaður. Sá urðunarstaður getur ekki tekið við af Álfsnesi þar sem núverandi urðun fullnýtir starfsleyfi sitt.

Björn segir að ekki sé búið að finna urðunarstað ennþá. Hins vegar sé hópur að störfum innan Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem skilar tillögum á næstu vikum. Hann segir leit að álitlegum stað hafa staðið yfir í áratug án árangurs.

Í september fer fram verkefni sem nefnist Plastlaus september í þriðja skipti.  Plast er stór hluti af því sem heimili og fyrirtæki láta frá sér. Of mikið af plasti nær ekki til endurvinnslu heldur er urðað með almennu sorpi. Tilgangur verkefnisins er að vekja fólk til umhugsunar um plastnotkun og þann plastúrgang sem fellur til daglega og leita leiða til að minnka notkunina.

Þann 1. september tóku til að mynda gildi lög sem banna verslunum að gefa plastpoka. Taka þarf gjald fyrir þá.

31.000 tonn af plasti urðuð

Ekki er einfalt að festa fingur á hversu mikið af plasti er urðað á landsvísu. Samkvæmt upplýsingum frá Sorpu eru gerðar árlegar rannsóknir á innihaldi blandaðs úrangs sem fer til urðunar í Álfsnesi. Annars vegar eru gerðar rannsóknir á blönduðum úrgangi sem berst frá heimilum, og hlutfall mismunandi úrgangsefna metin. Hins vegar eru gerðar sambærilegar rannsóknir á bögguðum úrgangi sem berst á urðunarstaðinn. Baggaði úrgangurinn er að hluta úr móttökustöðum og inniheldur því blöndu af úrgangi frá heimlum og fyrirtækjum.

Niðurstöður rannsókna á bögguðum úrgangi árið 2018 benda til að allt að 31.000 tonn af plasti hafi farið til urðunar frá heimilum og fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu það árið á urðunarstað Sorpu.

Samkvæmt rannsókninni var plast um 26 prósent af því sem var urðað. Út frá niðurstöðum rannsókna á blönduðum úrgangi frá sorphirðu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu má áætla að rétt rúmlega 6.000 tonn af plastinu hafi verið frá heimilum eða aðeins um 19 prósent.

Til samanburðar flutti Sorpa 2.189 tonn af plasti út til Svíþjóðar til endurnýtingar árið 2018 sem að stærstum hluta kemur frá heimilum. Inni í þeirri tölu eru ekki skilagjaldskyldar plastflöskur sem fara til endurvinnslu. Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu segir að fyrirtæki í landinu geti gert betur í endurvinnslu.

„Rannsóknir okkar gefa til kynna að það séu umtalsverð tækifæri til að draga úr urðun á plasti hjá fyrirtækjum og langmestur ávinningur yrði af betri flokkun og úrgangsforvörnum ef horft er til magnsins,“ segir Björn.

Hann segir jafnframt að fyrirtæki ættu að velta því fyrir sér með hvaða hætti þau geti dregið úr losun og urðun.

„Mjög stór hluti flokkaðs plasts er í dag eingöngu hæfur til orkuendurvinnslu og aðeins um 40 prósent af flokkuðu plasti sem berst til SORPU er í raun efnisendurvinnanlegt eins og staðan er í dag. Það ætti því að horfa til þess að nota fremur plasttegundir sem er auðveldara að endurvinna og hætta framleiðslu og notkun á t.d. umbúðum sem eru blanda af mismunandi plasttegundum og öðrum efnum,“ segir Björn.

Stór hluti plasts til endurvinnslu sendur úr landi

Gríðarlegt magn af einnota plasti er urðað eða endar í náttúrunni og hafinu sem er mikið áhyggjuefni. Allt plast sem hefur verið framleitt er enn til. Það brotnar niður í smærri einingar en eyðist ekki. Þ.e. það plast sem ekki hefur endað í sorpbrennslu. Samhliða aukinni neyslu innanlands meðal íslendinga hefur ferðamönnum fjölgað seinstu ár sem veldur auknu heildarumfangi sorphirðu og vinnslu.

Frá Sorpu er plast og pappi sendur til Svíþjóðar. Pappi og pappír er endurunninn og nýttur í dagblaðapappír og pappírsþurrkur. Plastinu, sem er í grunninn unnið úr olíu, er hins vegar brennt til orkuvinnslu og breytt í rafmagn og hita. 

Íslenska gámafélagið og Gámaþjónustan taka á móti sorpi í mörgum sveitarfélögum á Íslandi. Íslenska gámafélagið selur plast til endurvinnslu í Svíþjóð og Gámaþjónustan sendir til Þýskalands. Um 80 prósent af því er endurunnið og verður að nýjum plastvörum en restin er óendurvinnanleg og fer til orkuvinnslu. 

Pappírinn og pappinn sem Íslenska gámafélagið og Gámaþjónustan taka á móti fer til Hollands þar sem hann er endurunninn. Eitthvað af því er svo sent út um heim til fyrirtækja sem framleiða vörur úr endurunnum pappírnum.

Minni umbúðir, meira plast

Á Frelsiseyju á Filipseyjum þekur plast stóran hluta strandlínunnar. Það plast á uppruna sinn í Manilla þar sem 14 milljónir manna búa.  Á Filipseyjum búa í heildina um 107 milljónir manna. Fimmtungur þjóðarinnar býr við sára fátækt.  Stór hluti plasts sem endar í hafinu á heimsvísu, eða um 60 prósent, kemur frá Indónesíu, Filipseyjum, Tælandi og Kína. Á hverju ári fara átta milljónir tonna af plasti frá þessum löndum lenda í hafinu samkæmt  Ocean Conservancy, sem berjast fyrir verndun hafsvæða. 

Framleiðendur snyrtivara og fleiri nauðsynja auka plastnotkun sína með því að setja vörur í minni umbúðir sem fátækt fólk hefur frekar efni á. Umfang og áhrif plasts í hafinu menga hafið og lífríkið við ströndina. Minni umbúðir eru framleiddar til að fátækir neytendur hafi efni á þeim. 

Til að framleiða plast er að mestu leyti notuð olía og jarðgas, en einnig efni eins og kol, sellulósi, gas og salt. Þess er orkugildi plastsins nokkuð mikið og það er víða brennt til orkuvinnslu. Mikið af því plasti sem Íslendingar skila til endurvinnslu er brennt til orkuvinnslu erlendis. Eitthvað er þó endurunnið og verður að öðrum plastvörum.

Flókið að flokka?

Fyrirkomulag flokkunar liggur ekki alltaf í augum uppi og þykir sumum erfitt að átta sig á hvort að plast sé endurvinnanlegt eða ekki og hvernig eigi að flokka það. Sveitarfélög hér á landi hafa ekki samræmt endurvinnsluflokkun sín á milli. Það kemur til af því að móttökuaðilar hafa mismunandi úrræði hvað varðar vinnslu efnanna. 

Plast þarf ekki að vera blóraböggull og táknmynd umhverfishamfara. Kolefnisfótsporið minnkar við minni notkun, en nýting á plasti er einnig mikilvæg. Í plasti liggja aukin tækifæri hvað nýtingu varðar. 

Björn Steinar Blumenstein, annar eigenda Plastplans, sagði í samtali við fréttastofu í sumar að hægt sé að nýta plast mun betur en nú er gert.

„Við viljum frekar reyna að útrýma hugmyndinni um einnota plasthluti. Það er hægt að endurnýta plast oftar en einu sinni og oftar en tvisvar,“ sagði Björn.

Plastplan tekur umframplastið sem fellur til og flokkar áður en það er hakkað niður og nýir hlutir búnir til. Fyrirtækið hefur fjórar vélar til umráða. Ein tætir plastið niður en hinar þrjár þjóna allar þeim tilgangi að koma bráðnuðu plasti í mót. 

„Við viljum að neytendur og fyrirtækin fái eitthvað í hendurnar strax, við viljum búa til nytsamlega hluti til að stuðla að nauðsynlegri hugarfarsbreytingu,“ sagði Björn Steinar.

Í Amsterdam Í Hollandi hefur verið leitað leiða til að gera plasthirðu áhugaverða, og jafnvel skemmtilega. Ferðamönnum gefst tækifæri til að leggja sitt að mörkum til að hreinsa plast og annan úrgang með áhugaverðum hætti.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi