„Enginn skammarkrókur á vinnustofunni minni“

Mynd: RÚV / RÚV

„Enginn skammarkrókur á vinnustofunni minni“

11.04.2018 - 14:17

Höfundar

„Ég var oft upptekin af því að klára teikningar, fylla út í allt hvíta rýmið. Það mátti ekkert hvítt vera, það var alltaf reglan á myndlistarnámskeiðum þegar ég var barn,“ segir listakonan Korkimon sem nýverið opnaði sína fyrstu einkasýningu hér á landi, Metnaðargræðgi, í Gallerí Geysis.

Á sýningunni má sjá teikningar og skúlptúra  en Korkimon, Melkorka Katrín, vinnur einnig með klippi- og ljósmyndir. Hún byrjaði snemma að taka myndir og vann lengst af með þann miðil í ýmsu samhengi. Síðar færði hún sig yfir í önnur listform og á sýningunni má finna hennar fyrstu verk af þeim toga. „Þetta voru fyrstu skúlptúrarnir sem ég framleiddi svona vísvitandi sem höggmyndir sem ég ætlaði að sýna sem svo. Það eru engin not fyrir þessi form og mér fannst svolítið sniðugt og "cheeky" að setja eitt hjól undir af því að þá er ekki séns að hann geti staðið.“

Hlutir fá líf

Melkorka útskrifaðist úr Sarah Lawrence skólanum í New York í fyrra þar sem hún lærði myndlist og aðrar listgreinar. Hún vinnur líka með texta og titlar hennar hafa iðulega breiða skírskotun. „Innblásturinn fyrir teikningarnar kemur aðallega úr ljósmyndun en undirliggjandi þráðurinn er mannslíkaminn, hreyfing, beiting á líkama og að hafa ekki heild,“ segir hún.

Meðal verka sýningarinnar er vaxskúlptúr með fléttu úr hári. „Vaxskúlptúrinn er steyptur í mót en fléttan er flétta úr mér síðan ég var 8 ára og fór fyrst í klippingu. Mömmu minni fannst hárið okkar systranna svo heilagt að það var bara bannað að fara í klippingu eins lengi og hægt var. Svo geymdi hún fléttuna eftir að ég fór fyrst i klippingu sem ég vissi ekki fyrr en bara fyrir þremur árum þegar ég fann hana í geymslu. Þetta eru einhver þemu sem eg er að vinna með að gefa hlutum og skúlptúrum og teikningum líf svona eftir á, einhvers konar afsökun fyrir mig að geyma,“ segir Melkorka.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Að baki teikningunni Adult behaviours are cramping my style eru hugmyndir Melkorku um skorður og takmarkanir. Ég er búin að vera mikið að spá í leikreglur samfélagsins eða það sem manni er kennt endalaust í skóla, verið að undirbúa mann fyrir framtíðina. Ég hef alltaf verið svolítið smeyk við að vera skömmuð, ég vil ekki óhlýðnast. En svo bara einn daginn rann það upp fyrir mér að það er ég sem bý til reglurnar hér og ég get ekki óhlýðnast neinum, það er enginn skammarkrókur inni á vinnustofunni minni, það er bara frelsisrýmið og staðurinn minn.“

Nánari upplýsingar um sýninguna má finna hér.