Enginn nokkru sinni fengið færri atkvæði

Guðmundur Karl Þorleifsson
Guðmundur Karl Þorleifsson, oddviti Íslensku þjóðfylkingarinnar. Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Íslenska þjóðfylkingin fékk 125 atkvæði í nýafstöðnum borgarstjórnarkosningum og sló með því met sem forvígismenn hennar eru ekki líklegir til að hreykja sér af: Ekkert framboð hefur nokkurn tíma fengið færri atkvæði í kosningum í Reykjavík síðan byrjað var að skilgreina hana sem borg árið 1962. Raunar þarf að leita aftur til bæjarstjórnarkosninga í Reykjavík árið 1924 til að finna framboðslista sem fékk færri atkvæði. Þá voru íbúar í Reykjavík um 20.000 og listinn baðst beinlínis undan kjöri.

Ekki þarf þó að fara lengra aftur en til ársins 2002 til að finna það framboð sem hefur fengið næstfæst atkvæði í borgarstjórnarkosningum. Það voru Húmanistar árið 2002 og þeir fengu einu atkvæði meira en Þjóðfylkingin í ár, eða 126.

Sex af framboðunum sextán í borginni í ár raða sér á topp tíu lista yfir þau framboð sem hafa fengið fæst atkvæði í borgarstjórnarkosningum frá upphafi:

Atkvæði Framboð Ár
125 Íslenska þjóðfylkingin 2018
126 Húmanistaflokkurinn 2002
147 Frelsisflokkurinn 2018
149 Alþýðufylkingin 2018
203 Karlalistinn 2018
219 Alþýðufylkingin 2014
228 Borgin okkar Reykjavík 2018
246 Vinstri hægri snú 2002
274 Frjálslyndi flokkurinn 2010
365 Höfuðborgarlistinn 2018

 

Farið var að skilgreina Reykjavík sem borg árið 1962 og þá var fyrst kosið til borgarstjórnar. Fyrst var kosið til bæjarstjórnar í Reykjavík árið 1908 og sé einnig litið til bæjarstjórnarkosninga þarf að fara aftur til ársins 1924 til að finna lakari kosningu, með tilliti til hreins atkvæðafjölda, en Íslensku þjóðfylkingarinnar í ár.

Það ár, 1924, fékk C-listinn, undir forystu Magnúsar Sigurðssonar bankastjóra 102 atkvæði. Þess ber þó að geta að að þeir sem sæti áttu á listanum höfðu engan áhuga á því og biðluðu til kjósenda að kjósa sig alls ekki, eins og lesa mátti í svohljóðandi yfirlýsingu þeirra á forsíðu Morgunblaðsins:

„Með því að vjer undirritaðir höfum verið settir á lista (C lista) til bæjarstjórnarkosninga í Reykjavík 26. þ. m. án vitundar vorrar og vilja, og þar eð enginn af oss vill komast í bæjarstjórn, þá óskum vjer að enginn kjósi tjeðan lista við bæjarstjórnarkosningarnar“

Athygli vekur að í kosningunum í ár fengu þrjú framboð færri atkvæði en sem nam meðmælendafjöldanum sem þau þurftu að safna til að geta boðið fram. Undirskriftir minnst 160 meðmælenda þurfti til að framboð teldist gilt í Reykjavík, en Íslensku þjóðfylkingunni, Frelsisflokknum og Alþýðufylkingunni tókst ekki að afla sér jafnmargra kjósenda og meðmælenda að þessu sinni.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV