
Enginn kynbundinn launamunur hjá Kópavogsbæ
Rannsóknin var unnin upp úr launabókhaldi Kópavogsbæjar á einum mánuði. Unnið var með launagögn allra starfsmanna sem eru í yfir 40 prósent starfshlutfalli, alls 1.891 starfsmanna eða um 80 prósent allra starfsmanna Kópavogsbæjar.
„Kópavogsbær hefur unnið markvisst að því að útrýma launamun milli karla og kvenna og er það skýr stefna að greiða konum og körlum sömu laun fyrir sambærileg störf. Í ljósi þess er niðurstaðan mjög gleðileg fyrir sveitarfélagið,“ segir Ragnheiður Bóasdóttir formaður jafnréttis- og mannréttindaráðs.
Þegar leiðrétt hefur verið fyrir áhrifaþáttum á laun; aldri, starfsaldri, menntun, sviði og vinnutíma er ekki marktækur munur á launum kynjanna. Síðast þegar sambærileg rannsókn var gerð, árið 2014, var kynbundinn launamunur 3,25 prósent körlum í vil. 4,7 prósenta launamunur var á milli kynjanna, körlum í vil, í könnun árið 2003.
Í tilkynningu frá Kópavogsbæ segir að konur séu mikill meirihluti starfsfólks Kópavogsbæjar, eða um 80 prósent. Kynin dreifast hvorki jafnt eftir sviðum né starfi. Hlutfallslega fleiri karlar hjá Kópavogsbæ vinna í tekjuhæstu starfsgreinunum og karlar vinna að meðaltali fleiri yfirvinnutíma en konur sem hefur áhrif á heildarlaun þeirra. Meðallaun karla eru 18 prósentum hærri en meðallaun kvenna, áður en tekið er tillit til fyrrnefndra áhrifaþátta.