Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Enginn hvítlaukur í hvítlauksrétti

03.03.2013 - 17:59
Mynd með færslu
 Mynd:
Matvælastofnun gerir athugasemdir við allar matvörur sem teknar voru til rannsóknar nýlega. Margir matvælaframleiðendur sleppa því að greina frá uppruna kjöts á pakkningum og hversu mikið er af kjöti í vörunni.

Matvælastofnun gerir athugasemdir við merkingar á öllum þeim16 matvörum sem rannsakaðar voru nýlega. Athugasemdirnar eru margvíslegar. Ítalskar lambahakkbollur frá Gæðakokkum og framleiddar fyrir Kost innihalda til dæmis ekki nautakjöt, þótt það sé tilgreint í innihaldslýsingu. 

Upprunamerkingu nautakjöts vantar á hamborgara í Bónus, Hallarborgara frá Kjöthöllinni, nautahakk frá Íslenska kjötfélaginu, ungnautahakk frá Kosti og Krónunni og nautahakk frá Sláturfélagi Suðurlands. Nautahakkið frá SS er líka ranglega kallað nautahakk, því samkvæmt innihaldslýsingu er það nautgripakjöt, sem þýðir að kýrkjöt getur verið í hakkinu.

Þá er enginn hvítlaukur í Franskri hvítlaukspönnu frá Krónunni. Þar vantar líka að tilgreina hversu hátt hlutfall af nautakjöti er í vörunni. Margir matvælaframleiðendur sleppa því að tilgreina hlutfall kjöts í vörum sínum. Þetta á við um lambahakk í lambahakksbollunum frá Gæðakokkum, nautahakkið í lasagna frá Sláturfélagi Suðurlands, nautagrillsteik frá Kosti og Hallarborgarana frá Kjöthöllinni sem gefur heldur ekki upp þyngd vörunnar.

Íslenska kjötfélagið og Kostur gefa heldur ekki upp fituprósentuna í nautahakkinu og salkjötshakk frá Fjarðarkaupum er ekki saltkjötshakk, miðað við innihaldslýsingu.