Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Enginn fullgildur gangnamaður án talstöðvar“

Mynd: rúv / rúv

„Enginn fullgildur gangnamaður án talstöðvar“

14.09.2018 - 19:27

Höfundar

Vanir gangnamenn, rösk ungmenni og kyrrsetufólk að sunnan. Svona var hópurinn sem gekksuður hlíðar Hólafjalls, innst í Eyjafirði, um liðna helgi, samansettur. Það er tekið að hausta og þá þurfa sauðfjárbændur að safna liði og sækja fé sitt á fjall. Spegilinn fór í göngur og ræddi göngur á Eyjafjarðarsvæðinu við Birgi H. Arason, fjallskilastjóra Eyjafjarðarsveitar. Hlýða má á umfjöllunina í spilaranum hér fyrir ofan.

Rann jarmandi inn um hliðið án uppreisnar

Eftir dagsgöngu rann féð jarmandi niður fjallið, í gegnum hlið á fjallsgirðingunni og inn á tún. Það gerði enga uppreisn, eins og stundum áður.

Röð jeppa skreið upp að girðingunni, eftir gömlum slóða, til að sækja þá sem ekki vildu ganga heim að bæ og það var kannski ekki fyrr en gangnamenn sáu skær ljósin frá bílunum sem þeir áttuðu sig á því hversu mikið birtu var tekið að bregða. 

Fjallskilanefnd í hverju sveitarfélagi skipuleggur göngur og setur viðmið um hversu marga gangnamenn hver bóndi þarf að útvega. Í þessum göngum sem hér var lýst voru gangnamenn fleiri en fjallskilareglugerðin gerði ráð fyrir en samt var víða nokkuð breitt bil á milli manna. Spegillinn hitti þann sem stýrir gangnamálum  í Eyjafjarðarsveit, Birgi H. Arason, formann fjallskilanefndar og bónda í Gullbrekku. Hann var þá nýkominn niður á jafnsléttu eftir krefjandi göngur utar í firðinum. „Það gekk bara ágætlega, svolítið rólega. Við lentum í smá klettabardaga og þá tefur það svolítið en að öðru leyti gekk bara vel,“ segir hann. 

Talstöðvarnar voru bylting

Mönnunarþörfin er metin á hverju svæði fyrir sig. Hún ræðst af stærð svæða og fjölda kinda á þeim. Þá er haft gott samráð við gangnaforingja og aðra bændur á hverju gangnasvæði, að sögn Birgis. Dagsverkið er metið á tíu þúsund krónur og bændur mega borga í kjöti. 

Viðmið fjallskilanefndar lúta að lágmarksmönnun og gert er ráð fyrir fullgildum gangnamönnum. „Það eru þeir sem geta smalað, eru duglegir og hreyfanlegir, svo er alltaf gott að hafa góðan hund með. Eftir að við fórum að nota talstöðvar fyrir 15, 16 árum síðan þá er í raun hægt að fara með algerlega ókunnugt fólk sem er bara duglegt og getur smalað. Það er hægt að lóðsa þetta bara eins og ég veit ekki hvað um fjöllin. Það er bara miklu meira gagn af gangnamönnum eftir að talstöðvarnar komu og þær spara þeim heilmikla göngu, að vera að flækjast um fjallið að óþörfu. Það er bara orðið þegjandi samkomulag um það að það er enginn fullgildur gangnamaður sem ekki mætir með talstöð.“

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Birgir segir það hjálpa að hafa góðan hund.

Gott að hafa vegstjóra til taks

Ef það er vegur fyrir neðan fjallshlíðina sem er gengin getur verið gott að hafa einhvern þar sem fylgist með gangnamönnum, sem yfirleitt klæðast fötum í skærum litum, sér hvar kindurnar halda sig og getur veitt gangnamönnum tilsögn. „Það er alltaf einn svona vegstjóri, eins og við köllum það, ekki verkstjóri. Hann er mjög nauðsynlegur á mörgum stöðum og gott að hafa einhvern sem fylgist með og getur sagt mönnum til. Oft í þessum fjallshlíðum sést ekki á milli manna og þó fjöllin sýnist slétt og felld eru oft hæðir í hlíðunum þannig að menn sjást ekki allan daginn þó þeir gangi hlið við hlið.“

Fyrir tíma talstöðvanna var nær ómögulegt að hafa vegstjóra, þó menn hafi reynt að öskra og verið nálægt því að gera út af við raddböndin, að sögn Birgis.

„Menn verða að viðurkenna lofthræðslu“

Það er ekki hættulaust að fara í göngur. „Á mörgum stöðum er þetta stórhættulegt, menn leggja mikið á sig, fara í miklar hættur. Eins og til dæmis í dag, þá vorum við að brölta í færi sem er ekki endilega æskilegt að vera að brölta í, klettar og skriður, mjög seinfarið og erfitt að fóta sig. Það eru mörg svæði hér hættuleg, við vorum á svæði í gær þar sem er mikið af klettum og giljum en þetta held ég bara er yfirleitt slysalaust. Það varð eitt slys í göngum á fimmtudag þar sem hestur datt með knapann. Sjálfur lenti ég svo í tjóni í fyrra haust í göngum, það hrapaði undan mér jarðvegur á hættulegum stað og ég lemstraðist svolítið við það.“

Það er því kannski gott að fólk sem gengur þessi svæði sé vant? Birgir jánkar því. „Ég hef reyndar alltaf þá reglu að ég spyr menn hvort þeir séu lofthræddir og ef þeir eru það fá þeir ekki að fara í hættulegar aðstæður, það á ekki að gera það og það er stórhættulegt að lenda í svoleiðis tilfelli því menn frjósa yfirleitt. Menn verða bara að viðurkenna það fyrir mér ef þeir eru lofthræddir eða smeykir og þá eru þeir sendir annað.“

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Það getur verið erfitt að fóta sig í bröttum skriðum en skriðurnar voru sjálfsagt brattari þar sem Birgir gekk.

Maður uppi á fjalli myndaði kletta

Birgir hefur notað dróna og telur að meira verði gert af því á næstu árum. Þeir auka á öryggi gangnamanna. „Við notuðum þá í gær í þessum Strjúgsárklettum uppi í Djúpadal, vorum með einn mann uppi á fjalli sem myndaði klettana og gat sagt okkur til um hvar kindurnar voru, þær voru ekki ánægðar með að það væri verið að fljúga svona í kringum þetta en virtust ekkert hræddar og voru ekkert að víkja sér undan. Hann telur að notkun dróna eigi eftir að færast í aukana á næstu árum. 

Færri og eldri bændur 

Sauðfjárbændum hefur fækkað og bændur eru að eldast. Í vor birtist grein í Bændablaðinu þar sem haft var eftir Þorsteini Bergssyni, fyrrverandi sauðfjárbónda og núverandi eftirlitsmanni hjá MAST, að ófremdarástand væri á fjallskilum víða. Vegna manneklu við smölun hafi þurft að skipta svæðum upp og smala þau á lengri tíma og það auki líkur á að fé verði eftir. Í blaðinu sagði að hugmyndir væru á lofti um að setja reglur um sauðfjárhald sem feli í sér að bændur, sem ekki getið framvísað lista að vori yfir nauðsynlegan fjölda leitarmanna fyrir næsta haust, fái ekki að reka á fjall. 

Vandræðagangur í Loðmundarfirði 

Í lok ágúst auglýsti Borgarfjörður eystri eftir gangnamönnum í Loðmundarfirði. Í vetur var mikið fjallað um eftirlegukindurnar í firðinum, illa gekk að smala þar síðasta haust og svo fór að MAST felldi 29 kindur, sem ekki tókst að bjarga, lömbin voru horuð og snjókögglar í ullinni. Viðbrögðin við auglýsingunni í haust voru meiri og öðruvísi en Jón Sigmarsson, fjallskilastjóri í hreppnum, gerði sér vonir um. Fjöldi útlendinga lýsti yfir áhuga á því að koma í göngur. Framlag þeirra var þó afþakkað og Jón segir að eftir á að hyggja hefði átt að koma fram í auglýsingunni að verið væri að leita að fólki sem væri þokkalega vant því að reka fé af fjalli.

Mynd með færslu
 Mynd: Eiður Gísli Guðmundsson - Facebook
Frá aðgerðum í Loðmundarfirði í byrjun árs.

Fáir komu út á auglýsinguna

Fyrri göngum er lokið og voru þær vel mannaðar að sögn Jóns, það hafi þó mátt telja þá á fingrum annarrar handar sem mættu út á auglýsinguna. Hann hefur mestar áhyggjur af seinni göngum, oft gangi illa að manna þær, einhverjir hafi þó gefið kost á sér. Hann segir vandræðin í fyrra hafa skrifast á manneklu að einhverju leyti, en ekki öllu. Þetta snúist líka um að bændur tryggi að fé sé á girtum svæðum og snúi ekki aftur í fjallið að göngum liðnum.

 Gengur ágætlega víðast hvar

Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, telur að heilt yfir gangi ágætlega að manna göngur og engin breyting frá allra síðustu árum. Þetta sé þó alltaf misjafnt eftir svæðum og frumkvæði bænda skipti máli. 

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Oddný Steina Valsdóttir.

Birgir, fjallskilastjóri í Eyjafjarðarsveit, segir ekki erfitt að fá fólk til að ganga á svæðinu en að kannski valdi fækkun bænda því að erfiðara sé að manna mannfrekustu göngurnar. Gangnamenn sæki alltaf í ákveðna stemmningu. 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV

„ Flestir gera vel við sína menn, gefa þeim að borða og svoleiðis. Stór hluti af göngunum er að mæta í matinn eftir þær. Þetta tengist mikið fjölskyldunum að mæta í göngurnar og sumir vilja koma ár eftir ár.“ 

Eitt hefur þó breyst, fækkun fjár hefur gert það að verkum að kindurnar eru víðförulli en áður. „Eftir að fé fækkaði er meira flakk á því, það er að finna sér aðra staði til beitar og fer, því það er ekki fé á móti þar sem það kemur fer það bara yfir á önnur svæði og þá er bara greið leið hér um og yfir fjöllin.“

Viðurlög við því að skaffa ekki menn

Ef illa gengur að manna getur fjallskilanefnd útvegað menn, sem bóndinn greiðir þá fyrir. Það eru viðurlög við því, útvegi bændur ekki þann fjölda gangnamanna sem þeim er ætlað að útvega, þeir þurfa þá að greiða eitt og hálft dagsverk í refsingu. Þessu ákvæði er þó afar sjaldan beitt að sögn Birgis og einungis ef brot eru ítrekuð. Þá frétti fjallskilanefnd stundum af þessum brotum síðust allra, en það er gangnaforingja að tilkynna um þau til fjallskilanefndar. 

Erfiðara að manna aðrar göngur

Aðrar göngur eru um næstu helgi, þá er reynt að sækja þær kindur sem ekki náðust í fyrstu göngum. Birgir segir að oft gangi verr að manna þær, skipulagið sé ekki í jafn föstum skorðum. 

„Hérna í fjöllunum í kringum bæina er þetta oft þannig að það er farið í ferð, ef maður sér kind upp í fjalli skokkar maður gjarnan fyrir hana og sækir hana heldur en að vera að bíða og reka hana á ákveðnum gangnadegi en inn á þessa stóru dali er nauðsynlegt að fara á þessum dögum ef það er gott veður.“ 

Stundum þurfi bændur að vera að sækja fé fram á vor, það sé þekkt um allt land og ekki bundið við Eyjafjarðarsvæðið. 

Tengdar fréttir

Austurland

Útlendingar vildu ólmir smala í Loðmundarfirði