Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Enginn fær umboð forsetans - fundurinn í heild

25.11.2016 - 11:08
Mynd: RÚV / RÚV
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ætlar ekki að veita neinum umboð að sinni til stjórnarmyndunar í ljósi þess hvernig stjórnarmyndun hefur þróast. Hann segir brýnt að kalla þing saman fljótlega. Hann segir enga ástæðu til taugaveiklunar en benti forystumönnum stjórnmálaflokkanna jafnframt á að það væri ekki vænlegt til árangurs að útiloka aðra flokka. Guðni sagðist bjartsýnn á að óformlegar viðræður beri árangur strax í næstu viku.

Eftir að Guðni hafði lesið upp yfirlýsingu, sem hægt er að lesa hér að neðan, svaraði hann nokkrum spurningum frá fjölmiðlum. Hann sagði það sína skoðun að nauðsynlegt væri að kalla þing saman. Hvenær það yrði gert kæmi bara í ljós. Það væri þó æskilegt að slíkt yrði gert fyrir jól.

Guðni sagðist hafa velt því fyrir sér nokkuð lengi að gefa forystumönnum stjórnmálaflokkanna nokkurra daga frið. En hann benti líka á að stjórnarmyndunarumboðið væri ekki formlegur gerningur og það væri ekkert endilega vænlegt til árangurs að einhver einn hefði stjórnarmyndunarumboðið. „Mönnum er frjálst að tala saman án þess að einn hafi umboðið á hendi.“

Guðni sagði ekki tímabært að íhuga minnihlutastjórn og sagðist vera bjartsýnn á að hægt væri að hefja myndun nýrrar ríkisstjórnar strax í næstu viku, hann hefði ákveðna hluti fyrir sér í því. Guðni lauk fundi sínum á að beina því til forystumanna stjórnmálaflokkanna að það væri ekki vænlegt til árangurs að útiloka aðra flokka.

Yfirlýsing forsetans í heild sinni: 

Nú eru liðnar tæpar fjórar vikur síðan gengið var til alþingiskosninga. Tveir flokksleiðtogar hafa fengið umboð til stjórnarmyndunar, fyrst Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, svo Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Bæði þreifuðu fyrir sér um ýmsa kosti, bæði boðuðu til formlegra viðræðna um myndun nýrrar ríkisstjórnar sem nyti meirihluta á þingi.

Í fyrradag tilkynnti Katrín mér að bundinn hefði verið endi á viðræður fulltrúa fimm flokka um stjórnarsamstarf. Í framhaldi af því bað ég hana að kanna hvort grundvöllur væri fyrir frekari stjórnarmyndunarviðræðum undir hennar stjórn. Í gærkvöldi tjáði hún mér að svo væri ekki, eins og sakir stæðu að minnsta kosti. Fyrr í morgun kallaði ég hana því á minn fund hér á Bessastöðum þar sem við ræddum stöðu mála áfram og hún skilaði umboði mínu til stjórnarmyndunar.

Í beinu framhaldi af þeim fundi ræddi ég í síma við formenn eða fulltrúa allra flokka sem eiga sæti á Alþingi um þá stöðu sem upp er komin. Um leið og ég aflaði upplýsinga um afstöðu þeirra til stjórnarmyndunar minnti ég á þá miklu ábyrgð, sem hvílir á þinginu, að sjá til þess að ný ríkisstjórn verði mynduð þegar fyrri stjórn hefur misst þingmeirihluta og beðist lausnar. Í ljósi þess hvernig viðræður um stjórnarmyndun hafa þróast frá kosningum og þeirra sjónarmiða sem fram hafa komið í samtölum mínum við forvígismenn flokkanna hef ég ákveðið að veita ekki einum tilteknum formanni eða fulltrúa flokks umboð til stjórnarmyndunar að sinni. Fyrir slíku skrefi eru bæði hefð og gildar ástæður eins og málum er komið. Skynsamlegast er að forystufólk flokkanna á þingi kanni óformlega næstu daga hvers konar samstarf sé mögulegt enda eru slíkar viðræður þegar hafnar.

Í því sambandi árétta ég mikilvægi þess að stjórnmálamennirnir rísi undir þeirri ábyrgð sem þeim er lögð á herðar, að sjá til þess að í landinu sé ríkisstjórn sem meirihluti á Alþingi geti sætt sig við. Ég nefni jafnframt þá brýnu nauðsyn að kalla þing senn saman. Vitaskuld væri æskilegast að samkomulag um nýja ríkisstjórn lægi fyrir við þingsetningu. Ég vænti þess að um helgina eða í byrjun næstu viku í síðasta lagi hafi línur skýrst og unnt verði að ákveða næstu skref í þessum stjórnarmyndunarviðræðum.
 

 
Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV