Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Enginn ætti að þurfa að sofa úti

26.04.2019 - 16:29
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Meginstef nýrrar stefnu í málefnum heimilislausra er að enginn ætti að þurfa sofa úti, segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Velferðarráðs Reykjavíkur. Verið sé að fjölga úrræðum fyrir heimilislausa, bæði neyðarúrræðum og langtímabúsetu. Markmiðið sé að fækka neyðartilfellum. Fyrstu drögin að stefnunni voru kynnt í Velferðarkaffi, sem velferðarráð Reykjavíkur stóð fyrir í morgun, um málefni heimilislausra.

Heiða Björg segir að það þurfi líka að vinna á fordómum í garð heimilislausra. Erfitt hafi reynst að finna húsnæði fyrir fólk sem er eða hefur verið heimilislaust. „Við þurfum að ræða við samfélagið um það að við þurfum öll að búa einhvers staðar,“ segir Heiða Björg.

Skaðaminnkandi og valdeflandi nálgun

Heiða Björg segir að í heildina séu um 300 manns heimilislaus. Þriðjungur þeirra séu þó með tímabundið búsetuúrræði sem geti í einhverjum tilfellum verið til langs tíma. Um 200 heimilislausra sæki gistiskýlin og búi við ótryggar aðstæður. Hún segir meginstef stefnunnar vera að enginn ætti að neyðast til að sofa utandyra. 

Heiða Björg segir að eitt af markmiðunum sé að mæta þörfum einstaklinga með skaðaminnkandi og valdeflandi nálgun. Ekki verði sett skilyrði fyrir þjónustu heldur verði lögð áhersla á einstaklingsmiðaða þjónustu og stuðlað verði að virkri þáttöku allra þeirra sem þjónustan snýr að.

Hún segir ekki þá kröfu gerða til einstaklinga að hætta neyslu til þess að fá búsetu heldur verði einstaklingum mætt þar sem þeir eru staddir. Þeim sé svo boðin meðferð þegar þeir eru tilbúnir til. „Þeir sem eru með miklar og flóknar þjónustuþarfir eru allir komnir á þann stað að þeir þurfa þjónustu og þeir eiga rétt á þjónustu, rétt eins og við hin,“ segir Heiða Björg.