Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Engin vopnaleit í innanlandsflugi

15.07.2012 - 13:10
Mynd með færslu
 Mynd:
Flugfargjöld myndu hækka og flug á smærri þéttbýlisstaði hugsanlega leggjast af ef vopnaleit yrði tekin upp í innanlandsflugi. Ísland er eina landið í Evrópu þar sem engin vopnaleit fer fram í innanlandsflugi.

Ísland hefur verið á undanþágu í átta ár og talsmaður Flugmálastjórnar segir að flug myndi hugsanlega leggjast af á smærri stöðum á landsbyggðinni yrði undanþágan afnumin.

Öryggisráðstafanir í Evrópu hertar

Öryggisráðstafanir á flugvöllum Evrópu hafa verið hertar til muna á síðustu árum og nú er svo komið að vopnaleit er framkvæmd á öllum flugfarþegum álfunnar hvort sem þeir ferðast innanlands eða utan. Ísland er undantekning frá þessari reglu.

„Ísland er í raun eina landið í evrópu sem er með sérstakar ráðstafanir og í því felst að það er ekki eiginleg vopnaleit á farþegum,“ segir Einar Örn Heðinsson, framkvæmdastjóri flugöryggissviðs Flugmálastjórnar.

Ótímabundin undanþága

Hann segir að þessi undaþága byggist á úttekt  framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Hún byggist á legu landsins, fjarlægð frá stórborgum og samsetningu flugflotans. Ísland hefur verið á undanþágu síðan árið 2004 og hún er ótímabundin.

Einar segir enga ástæðu til að afnema undanþáguna. Það hefði mikinn kostnað í för með sér, kaupa þyrfti vopnaleitartæki, ráða og þjálfa starfsfólk og sums staðar væru flugbyggingar einfaldlega ekki nógu stórar. Einar segir að það gæti haft miklar afleiðingar fyrir innanlandsflug ef undanþágan yrði afnumin.

Flugfargjöld myndu hækka

„Flug á minni staði yrði væntanlega óhagkvæmt vegna kostnaðar á flugvellinum sjálfum og svo myndi það leiða til þess að það yrðu meiri tafir, menn yrðu að mæta mikið fyrr til að skrá sig í flug og það yrði hægara rennsli á flugvellinum sjálfum, mun hægara,“ segir Einar.

En myndu flugfargjöld hækka? „Já, kostnaðurinn lendir náttúrlega alltaf á neytendanum, þannig að ég hugsa að það yrði niðurstaðan.“ Einar segist ekki muna eftir neinu tilviki undanfarin ár þar sem vopnaleit hefði bjargað einhverju.