Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Engin skýring fundist á ærdauða

16.06.2015 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, segir að engin skýring hafi ennþá fundist á því hvers vegna kindur hafa drepist úr næringarskorti þrátt fyrir að hafa verið vel fóðraðar.

Matvælastofnun, ásamt Bændasamtökum Íslands og Landssambandi sauðfjárbænda, safnar nú upplýsingum hjá bændum um dularfullan ærdauða sem orðið hefur í öllum landsfjórðungum.

Fyrir helgi fengu 2.000 bændur spurningalista um umfang og útbreiðslu ærdauða sem orðið hefur vart í öllum landsfjórðungum. Spurningalistinn er liður í rannsókn Matvælastofnunar á orsökum ærdauðans og eru bændur beðnir að svara spurningunum sem fyrst.  Spurt er um aldur kindanna, fóður, fóðurbæti, ýmis einkenni og margt fleira. „Nú hafa borist 109 svör alls staðar af landinu og við gerum ráð fyrir að það eru meiri líkur á að bændur, sem hafa orðið fyrir skakkaföllum, hafa misst fé, að það séu þeir sem eru að svara,“ segir Sigurborg. 

Bændur urðu varir við óeðlilegan ærdauða strax upp úr áramótum og margir héldu að lélegum heyjum væri um að kenna. Strax var farið að gefa meiri fóðurbæti. Allt annað virðist hafa verið eðlilegt. Sigurborg segir að svo virðist sem fleiri kindur hafi drepist á Vesturlandi og Norðvesturlandi en á Austurlandi. Bæði ær og hrútar á öllum aldri hafa drepist og orsökin er næringarskortur þrátt fyrir mikla gjöf og fóðurbæti. „Það sem er gegnumgangandi í krufningsmyndinni, það er þessi næringarskortur; þær eru mjög horaðar þessar kindur. Af hverju vitum við ekki. Það er ekki komið fram í krufningu,“ segir hún. 

Á næstu dögum verður farið í vettvangsrannsóknir. „Við munum velja núna þá bæi sem að eru vænlegir til að skoða nánar. Skoða þá gripina og hjarðirnar mjög vel, þá af dýralæknum, og taka þá sýni til frekari greiningar.“