Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Engin sértæk rými í dagþjálfun í Eyjum

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Engin sértæk rými eru í Vestmannaeyjum í dagþjálfun fyrir fólk með heilabilun og á Suðurlandinu öllu er slík þjónusta aðeins veitt á Selfossi. Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag og haft eftir Sólrúnu Erlu Gunnarsdóttur, deildarstjóra öldrunarmála á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Hraunbúðum í Vestmannaeyjum, að varla sé hægt að ætlast til þess að fólk með heilabilun sé sent með Herjólfi daglega til að njóta þeirrar þjónustu.

Hraunbúðir hafi sótt um að setja upp tvö rými í dagþjálfun árið 2016 en fengið neitun. Fólki með heilabilun í Vestmannaeyjum stendur aðeins til boða að nýta almenn dagdvalarrými, að því er segir í frétt Morgunblaðsins. Þegar hefur verið sett upp minningaherbergi í Hraunbúðum og iðjuþjálfi ráðinn, auk þess sem teymi ákvarði um inntöku í dagþjálfunarúrræði. Þessi atriði hafi verið nefnd þegar ríkið óskaði eftir rökstuðningi við umsókn Hraunbúða um dagþjálfunarrými í fyrra. Þá fékkst ekki niðurstaða í málið. Ekki var sótt um í ár, heldur sé beðið eftir svari við fyrri umsókn.

Sólrún Erla segir í samtali við fréttastofu að fólk með heilabilunarsjúkdóma fái úthlutað hefðbundnum rýmum í dagdvöl. Starfsfólk geri sitt allra besta til að veita því viðeigandi þjónustu. Sólrún bendir á að ríkið greiði meira með hverju rými fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóma og því brýnt að fá svör sem fyrst við umsókn um slíkt.

Komið hefur fram í fréttum að undanförnu að fjöldi fólks með heilabilun bíði eftir að komast í dagþjálfun. Jón Snædal yfirlæknir á öldrunarlækningadeild Landspítala sagði í viðtali við fréttastofu á dögunum að slík dagþjálfun væri sérstaklega mikilvæg til að viðhalda virkni fólks með heilabilunarsjúkdóma.