
Engin sameiginleg Skripal-rannsókn
Mánuður er í dag síðan taugaeitrinu Novichok var beitt gegn Skripal feðginunum í Salisbury á Englandi. Árásin var upphafið að miklu pólitísku þrætuepli sem ekki sér fyrir endann á og mörg ár og líklega áratugir eru síðan svo kalt hefur verið milli Breta, Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra og Rússa.
Framkvæmdastjórn eftirlitsnefndar um bann við notkun efnavopna kom saman á neyðarfundi í Haag í dag. Fundurinn var fyrir luktum dyrum og líklegt að Bretar og Rússar haldi áfram að benda hver á annan. Rússar vilja sameiginlega rannsókn á árásinni en Bretar kölluðu tilboðið siðlaust. Framkvæmdastjórnin greiddi atkvæði um tillögu Rússa í kvöld og hafnaði því að hleypa fleirum að rannsókninni. Rússar óskuðu síðdegis eftir fundi í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna annað kvöld en þarlend yfirvöld vilja sjá sönnunargögn sem Bretar hafa undir höndum.