Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Engin mistök en hefði líka mátt bíða

25.03.2014 - 18:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir að vel hefði mátt bíða með að leggja tillöguna um slit á aðildarviðræðum að Evrópusambandinu fram, en menn geti alltaf lært. Hann segir ekki hægt að skilja að spurningarnar um að vilja til að ljúka viðræðum eða vilja ganga í ESB.

Sameiginlegar þingmannanefndir Íslands og Evrópusambandsins komu saman til fundar í Hörpu í dag þar sem fjallað þróun efnahagsmála, sjávarútvegsmál, norðurslóðir og fleira. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tók þátt í  umræðu um samskipti Íslands og ESB. Í ræðu sinni sagði hann að óviðunandi hefði verið að nokkur ESB ríki nýttu aðildarviðræðurnar sem vopn í Icesave- og makríldeilunum. Hann segir að vel megi vera að þingsályktunartillaga hans um slit á viðræðunum hafi ekki verið sett fram á góðum tíma, það breyti samt ekki niðurstöðunni, en alltaf megi læra. 

„Menn geta eflaust sagt einhverjir að þetta hafi verið mistök. Í mínum huga voru þetta ekki nein mistök, en þetta hefði líka alveg mátt bíða tvo daga í viðbót,“ sagði Gunnar Bragi.

Ríkisstjórnin hafi talið sig komna með niðurstöðu eftir að hafa kynnt sér skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og fleira. Málið sé núna hjá utanríkismálanefnd. Gunnar Bragi vill ekkert gefa upp um þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, en sér ekki rökin fyrir því að ríkisstjórn sem er á móti aðild taki aðildarviðræður að sér. En hvað ef meirihluti þjóðarinn er á annarri skoðun en ríkisstjórnin?

„Hljótum við þá ekki að spyrja um leið hvort að fólk vilji ganga í Evrópusambandið eða ekki því það er líka meirihluti sem sýnir að fólk vilji það ekki,“ segir Gunnar Bragi.

Aðspurður hvort spurningin snúist um að fólk vilji klára viðræðurnar segir hann að hann telji að ekki sé hægt að aðskilja þessar spurningar.

„Því við sjáum að það er algjörlegta sitt á hvað þegar þú skoðar tölur í því sambandi,“ segir Gunnar Bragi.