Engin merki um hlaup í Múlakvísl

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður K. Þórisson - RÚV
Engin merki eru um að hlaup sé komið úr Mýrdalsjökli í Múlakvísl. Salóme Jórunn Bernharðssdóttir, náttúruvársérfræðingur á vakt á Veðurstofu Íslands, segir að grannt sé fylgst með fjórum þáttum, jarðhræringum, vatnshæð við Léreftshöfuð, lofttegundum við Láguhvola og rafleiðni í Múlakvísl.

Hún hafi tekið smá kipp í gær en lækkað aftur. Núna sé rafleiðnin 180 míkrósímens á sentimetra sem teljist eðlilegt. Salóme bendir á að í hlaupinu fyrir átta árum hafi rafleiðnin verið nærri því fjórfalt meiri en nú. Þá séu hvorki merki um óróa né hafi vatn safnast við Léreftshöfuð, sem er um sex kílómetrum norður af brúnni yfir Múlakvísl. Salóme segir að gert sé ráð fyrir því að hálftíma til klukkutíma eftir að vatnshæð tekur að hækka við Léreftshöfuð, sé komið flóðvatn niður á að þjóðvegi eitt.

Þá sé fylgst með því hvort styrkur þriggja lofttegunda við Láguhvola aukist. Láguhvolar eru um tíu kílómetra norður af hringveginum. Fylgst er með því hvort styrkur koltvísýrings, brennisteinsdíoxíðs og brennisteinsvetnis aukist. Þar mælist nú eðlileg dægursveifla.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi