Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Engin loðna á komandi vertíð

11.10.2016 - 18:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hafrannsóknastofnun leggur til að engar loðnuveiðar verði stundaðar á komandi vertíð. Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, segir brýnt að búa til plön um það með hvaða hætti leita eigi að loðnu. Sjávarútvegsráðherra vill ekki tjá sig um málið fyrr en rætt hefur verið við fulltrúa sjávarútvegsfyrirtækjanna.

Mælingar á loðnustofninum fóru fram í síðasta mánuði. Í tilkynningu segir að magn ungloðnu hafi verið víðast hvar mjög lítið. Niðurstöður leiðangurs benda til að árgangur 2015 sé mjög lítill. Einungis mældust rúmlega 9 milljarðar eða 88 þúsund tonn en samkvæmt aflareglu þarf fjöldinn að vera yfir 50 milljörðum svo að hægt sé að mæla með upphafsaflamarki fyrir vertíðina 2017/2018.

Þá segir að lóðningar hafi verið yfirleitt mjög gisnar og einungis hafi mælst 137 þúsund tonn af kynþroska loðnu. Mælingar á ungloðnu á sama tíma í fyrra gáfu vísbendingar um að vertíðin í ár yrði lítil. Í samræmi við aflareglu var því ákveðið að engar veiðar yrðu stundaðar nema mælingar nú í haust gæfu tilefni til endurskoðunar. 

Hafrannsóknastofnun mun að vanda mæla veiðistofn loðnu að nýju í janúar–febrúar á næsta ári og í ljósi þeirra mælinga endurskoða ráðgjöfina.

Búa þarf til plön með hvaða hætti eigi að leita að loðnu

Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, segir að þetta séu daprar fréttir. Þetta komi illa fyrir þau fyrirtæki sem byggja afkomu sína á veiðum og vinnslu á uppsjávarfisk þar sem að loðnan vegi þar þungt. Þá segir hann að ákvörðun Hafrannsóknastofnunar hafi ekki komið á óvart. Þetta hafi verið ástandið á loðnunni undanfarin ár og erfitt hafi verið að ná utan um mælingar: „Ég held að það sé brýnt að Hafrannsóknastofnun og útgerðin setjist niður og fari yfir þessar niðurstöður og búi til plön um það með hvaða hætti við ætlum að leita að loðnunni og stefna að því að finna hana fyrir komandi vertíð.“ 

Sjávarútvegsráðherra vill ekki tjá sig um málið 

Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegsráðherra segir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar ekki koma á óvart en fréttirnar séu vondar. Hann hyggst ekki tjá sig frekar um málið fyrr en hann hefur rætt við fulltrúa sjávarútvegsfyrirtækjanna.

 

Gunnar Sigurðarson
Fréttastofa RÚV