Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Engin kynferðisbrot til Neyðarmóttöku í nótt

07.08.2017 - 12:38
Mynd með færslu
 Mynd: Sighvatur Jónsson - RÚV
Mun rólegra var á tjaldsvæðum á Suðurlandi í nótt en næturnar á undan. Fimm gistu fangageymslur í Eyjum í nótt. Engar tilkynningar um kynferðisbrot hafa borist neyðarmóttöku í Reykjavík, það sem af er degi, en verkefnastjóri tekur fram að hugsanlegt sé að þolendur eigi eftir að hafa samband.

Á fimmta tug fíkniefnamála komu upp á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um helgina, auk þess sem fjórir til fimm gistu fangageymslur á hverri nóttu vegna ölvunar og óspekta. Þá var eitthvað um ofbeldisbrot, en Jóhannes Ólafsson yfirlögregluþjónn í Eyjum segist ekki hafa tölu á þeim enn. Jóhannes segir að umferðin úr Eyjum upp á land hafi gengið greiðlega.

„Þetta hefur gengið mjög vel, að ferja fólk yfir, meira að segja ekki alltaf verið fullt í allar ferðir með Akranesinu, en Herjólfur hefur verið fullbókaður. En það er engin biðröð á bryggjunum eða neitt, þannig að fólk virðist allavega ekkert vera að flýta sér,“ segir Jóhannes Ólafsson.

Mun rólegra á Flúðum í nótt

Lögreglan á Suðurlandi hefur haft í nægu að snúast um helgina, sérstaklega var róstusamt á Flúðum en í nótt hægðist verulega um og engin fíkniefnamál eða líkamsárásir komu til kasta Suðurlandslögreglunnar. Mun minni ölvun var á tjaldstæðum og mun færra fólk – líklegt er að hressileg rigning í gær hafi átt þar hlut að máli.

Hjá lögreglunni á Vestfjörðum fengust þær upplýsingar að helgin hefði verið með eindæmum róleg og eins og á stóru ættarmóti. Heldur færri hafi verið á Mýrarboltanum í Bolungarvík en undanfarin ár og engin ofbeldis-, fíkniefna- eða kynferðisbrot hafi komið upp. Sömu sögu er að segja frá Egilsstöðum og Akureyri. 

Engin kynferðisbrot komu inn á borð neyðarmóttöku Landspítalans í nótt eða það sem af er degi, að sögn Hrannar Stefánsdóttur verkefnastjóra, sem tekur þó fram að hún hafi ekki upplýsingar frá lögregluembættum og hugsanlegt sé að þolendur eigi enn eftir að leita á neyðarmóttökuna. Myndin muni skýrast betur þegar líður á daginn og næstu daga. Greint var frá því í gær að fimm kynferðisbrot hefðu verið tilkynnt til neyðarmóttökunnar það sem af væri verslunarmannahelgi, þar af þrjú á útihátíðum. 

 

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV