
Engin kona oddviti í Norðausturkjördæmi
Oddvitar framboðslista þingflokkanna í Norðausturkjördæmi eru þeir Preben Pétursson varaþingmaður Bjartrar framtíðar, Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður og fyrrverandi formaður VG, Einar Aðalsteinn Brynjólfsson framhaldsskólakennari fyrir Pírata og svo Benedikt Jóhannesson, stofnandi Viðreisnar, sem þó er búsettur í Reykjavík. Þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, og Höskuldur Þórhallsson þingmaður munu bítast um oddvitasætið á flokksþingi Framsóknar, en sú dagsetning verður ákveðin á miðstjórnarfundi flokksins þann 10. september næstkomandi.
Logi Einarsson, bæjarfulltrúi og nýr varaformaður Samfylkingarinnar, hefur gefið kost á sér til að leiða lista flokksins í kjördæminu, en stillt verður upp á lista og hann tilkynntur á sunnudag. Þá verður kjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins í Mývatnssveit um helgina og hefur Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra einn gefið kost á sér til að leiða listann.
Talsmenn Alþýðufylkingarinnar, Dögunar, Flokks fólksins, Húmanistaflokksins og Íslensku þjóðfylkingarinnar hafa sagst ætla að bjóða fram í öllum kjördæmum, en listar eru ekki komnir fram.
Ein kona var í oddvitasæti í Norðausturkjördæmi fyrir síðustu Alþingiskosningar, Brynhildur Pétursdóttir fyrir Bjarta framtíð. Brynhildur ætlar að hætta á þingi eftir þetta kjörtímabil.