Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Engin hagfræðileg rök fyrir lækkun

13.06.2013 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Jón Steinsson, dósent í hagfræði við Colombia-háskóla í New York, segist ekki sjá nein hagfræðileg rök fyrir lækkun veiðigjalds eins og nýtt frumvarp sjávarútvegsráðherra kveður á um. Skynsamlegra hefði verið að hækka veiðigjaldið og ganga þeim mun lengra í að lækka skatta sem eru atvinnuletjandi.

Nýtt frumvarp sjávarútvegsráðherra boðar lækkun veiðigjalds sem leiðir til ríflega þriggja milljarða lækkunar á tekjum ríkissjóðs á þessu ári og sex á því næsta.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, segir að óhóflegar álögur fyrri ríkisstjórnar hefðu sett fjölda sjávarútvegsfyrirtækja á hausinn og dregið enn frekar út tekjum ríkissjóðs. Nú geti menn hafið uppbyggingu og þá skapist mun meiri verðmæti en ella.

Jón Steinsson, dósent í hagfræði við Colombia-háskóla í New York, segir þetta ekki rétt. Hagnaður í greininni sé svo mikill þegar fyrirtækin hafi ævintýralegan hvata til að leggjast í alla þá fjárfestingu sem þörf krefur. „Lækkun á veiðigjaldinu úr 13 milljörðum í 10 milljarða hefur engin áhrif á hvata til fjárfestingar. Hvatinn til fjárfestingar er svo ævintýralegur hvort sem er að þetta hefur engin áhrif. Veiðigjaldið þyrfti að vera í kring um 50 milljarðar á ári til þess að þessi punktur hefði einhverja vigt.“

Jón nefnir einig að það sé svo mikill arður af því að sækja fiskinn að það sé fáranlegt að tala um að hann verði ekki veiddur, slíkt sé bara út í hött.

Jón segist ekki sjá hagfræðileg rök fyrir frumvarpi ráðherrans, það skjóti skökku við að lækka veiðigjaldið því það sé hagkvæmasta leið ríkissjóðs til að afla sér tekna. „Ef takmarkið er að auka hagvöxt þá væri miklu betra að lækka tekjuskattinn eða virðisaukaskattinn heldur en að lækka veiðileyfagjaldið. Í rauninni ættu þeir að ganga lengra og hækka veiðigjaldið og svo gætu þeir lækkað hina skattana meira. Það myndi auka hagvöxt í landinu,“ segir Jón.