Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Engin alvarleg frávik í kísilveri PCC á Bakka

06.09.2018 - 19:04
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Loftmengun við kísilverksmiðju PCC á Bakka hefur aldrei farið yfir heilsuverndarmörk og engin alvarleg frávik orðið frá því starfsemin hófst, að mati Umhverfisstofnunar. Niðurstöður úr eftirliti síðustu fjögurra mánaða voru kynntar á íbúafundi á Húsavík í dag.

Það eru niðurstöður úr eftirliti með gangsetningu verksmiðjunnar, eftirlit með uppkeyrslu ofna og niðurstöður úr loftgæðamælingum, sem Umhverfisstofnun kynnti á Húsavík í dag. Auk þess kynntu fulltrúar PCC Bakki Silicon niðurstöður umhverfisvöktunar fyrirtækisins sjálfs.

Eitt frávik frá starfsleyfinu

„Almennt séð hefur þetta gengið bara nokkuð vel,“ segir Einar Halldórsson, verkfræðingur hjá Umhverfisstofnun. „Það hefur komið eitt frávik frá starfsleyfinu, en ekkert alvarlegt. Loftgæðin hafa aldrei farið yfir heilsuverndarmörk. Við höfum séð lítils háttar hækkun á brennisteinsdíoxíði, en ekkert sem að ætti að hafa áhrif.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Það voru fáir gestir á íbúafundinum í dag

Kynningarfundur í samræmi við starfsvenjur

Einar segir að engra breytinga verði krafist í verksmiðjunni að svo stöddu. Hinsvegar hafi starfsfólk Umhverfisstofnunar verið við eftirlit í verksmiðjunni í dag og það eigi eftir að koma í ljós hvað komi út úr því. Kynningarfundurinn  sem nú er haldinn er í samræmi við starfsvenjur Umhverfisstofnunar og starfsleyfi verksmiðjunnar, en kynna ber á almennum fundi niðurstöður eftirlits í ákveðinn tíma.

Fimm eftirlitsferðir verið farnar

Eins og fyrr segir eru þetta niðurstöður eftir skamman tíma í rekstri verksmiðju PCC, en Umhverfisstofnun hefur farið þangað í fimm eftirlitsferðir. Frekari mælingar munu leiða í ljós hver loftgæðin verða, og aðrir umhverfisþættir, eftir lengra tímabil í framleiðslu verksmiðjunnar. „Auðvitað er reksturinn fullungur núna, þetta eru fjórir mánuðir. Það er ekki komið alveg í ljós hvernig þetta verður til frambúðar,“ segir Einar.