Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Engin ákvörðun um aðstoð til flóttamanna

11.09.2015 - 12:42
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fimmtíu milljón króna aukafjárveitingu verður úthlutað til Útlendingastofnunar til verkefna vegna hælisleitenda. Ráðherranefnd um málefni flóttamanna kom saman til fundar í stjórnarráðshúsinu í morgun. Utanríkisráðherra segir að styttist í niðurstöðu nefndarinnar.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra greindi frá aukafjárveitingunni við umræðu um fjárlög á Alþingi. Fjárveiting vegna málefna hælisleitenda var aukin um 200 milljónir á fjárlögum næsta árs, en Ólöf segir nauðsynlegt að endurskoða þá upphæð.

„Ég vil ítreka það og bið um leið um liðsinni þingsins í því, að það er nauðsynlegt að endurskoða þessar fjárhæðir í frumvarpinu við aðra umræðu. Og það er alveg augljóst að þær tölur sem frumvarpið ber með sér eru í engu samræmi við þá þörf sem að fyrir liggur.“

Þegar hafi borist 170 umsóknir um hæli á þessu ári, og talið er líklegt að heildarfjöldi fari upp í þrjú hundruð, sem er næstum tvöfalt meira en í fyrra. Meðferðartími hælisumsókna er nú þegar talinn of langur.

„Við stöndum frammi fyrir nýjum veruleika og það er mikilvægt að fjárlögin taki mið af honum. Það náðist ákveðinn árangur í fyrra, en því miður þá sjáum við að meðferðartíminn er aftur farinn að lengjast, vegna þessa álags sem er á kerfinu,“ segir Ólöf.

Erum enn að reyna að átta okkur á stöðunni

„Við erum að safna upplýsingum ennþá og að reyna að átta okkur á stöðunni. Hvað sé hægt að gera og þess háttar. En það var engin ákvörðun tekin“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.

Gunnar Bragi segir aðstoðina byggja á því hvers stjórnvöld treysti sér til og hvað innviðirnir þoli. „Við erum einfaldlega ennþá að fara yfir það. Það er mikill áhugi hjá sveitarfélögunum sem er gríðarlega jákvætt. Við finnum fyrir stuðningi almennings sem er líka jákvætt en við þurfum að einfaldlega að vanda okkur við þetta. Því við viljum ekki taka við fólki sem við getum ekki sinnt.“

Gunnar Bragi segir að reynt sé að hraða þessu ferli eins og kostur sé. „Auðvitað reynum við að hraða þessu ferli en á sama tíma er alveg ljóst að hvorki við né Evrópusambandið erum að fara að hjálpa öllum þeim sem að þarna eiga í vanda á þessari stundu.“ Hann segir þó styttast í niðurstöðu nefndarinnar.

„Þannig að það er betra að vanda sig og gera það vel þegar við erum tilbúin og auðvitað styttist í það“ segir Gunnar Bragi.

anna.kristin's picture
Anna Kristín Pálsdóttir
Fréttastofa RÚV
alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV