Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Engin ákvörðun tekin um sameiningu

05.05.2017 - 15:49
menntamálaráðherra
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Menntamálaráðherra segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um sameiningu Fjölbrautaskólans við Ármúla og Tækniskólans. Skoða þurfi þó ýmsa möguleika vegna fækkunar nemenda í framhaldsskólum. Hann segir að ekki sé verið að einkavæða Fjölbrautaskólann með þessu.

 

Til stendur að sameina Tækniskólann og Fjölbrautaskólann við Ármúla samkvæmt heimildum fréttastofu. Þetta hefur verið gagnrýnt bæði meðal kennarasamtaka og minnihlutans á Alþingi. 

Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra segir að ákvörðun um sameininguna hafi ekki verið tekin. „Við erum bara að skoða þetta af fullri alvöru og ræða fleiri möguleika en ákvörðun hefur ekki verið tekin ennþá. Ég er enn að bíða eftir ákveðnum gögnum og vinnu.“

Kristján segir nemendum hafa fækkað mikið í framhaldsskólum, meðal annars um á sjöunda hundrað á höfuðborgarsvæðinu á einu ári. Þetta sé bæði vegna náttúrulegrar fækkunar og styttingar á námi til stúdentsprófs. „Það er fullkomlega eðlilegt að þá sé verið að skoða með hvaða hætti skólakerfið tekst á við þennan breytta veruleika.“

En er þetta ekki dulbúin einkavæðing á fjölbrautaskólanum? „Nei, einkavæðing er allt öðruvísi. Við erum til dæmi með samninga við 50 stofnanir á framhaldsskólastigi, 30 framhaldsskóla, þar af eru nokkrir einkareknir. Þetta er einkarekstur þar sem ríkið er með samning og gerir kröfur um ákveðna þjónustu. Það er allt annað en einkavæðing.“

Kristján segist taka alvarlega gagnýni á samráðsleysi í málinu. „Það er alltaf spurning á hvaða stigi á að fara út með mál sem eru í vinnslu, hvaða upplýsingar liggja fyrir sem hægt er að bera á borð. Við höfðum einfaldlega metið það sem svo að það væri ekki komið að því á þeim tímapunkti. Það stóð aldrei til að liggja á þessum hlutum.“

Kristján býst við að ákvörðun liggi fyrir um leið og hann fái frekari gögn sem hann bíði nú eftir. Ekki sé ljóst hvort sameinaður skóli myndi taka til starfa strax í haust. „Ef ákvörðun verður tekin þá myndi það verða birt jafnhliða hvenær skólinn tæki til starfa.“

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV