Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Engar viðræður um varanlega aðstöðu hersins

09.02.2016 - 22:22
Nærmynd af skilti Utanríkisráðuneytisins
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Utanríkisráðuneytið segir engar viðræður milli Íslands og Bandaríkjanna um varanlega aðstöðu bandarísks liðsafla á Íslandi. Hins vegar hafi verið rætt um möguleg aukin umsvif Bandaríkjanna og annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins á Íslandi.

Vefrit hersins, Stars and Stripes, greinir frá því í kvöld að Bandaríkjaher hyggst snúa aftur og koma sér upp aðstöðu á Íslandi fyrir kafbátaleitarvélar. Til að byrja með verði herinn aðeins með tímabundna aðstöðu hér, en gæti seinna meir farið fram á aðstöðu til langframa.

Mögulega aukin umsvif Bandaríkjamanna og NATO á Íslandi

Ekki hefur náðst í Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra vegna málsins. Í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu RÚV segir að engar viðræður eigi sér stað á milli Íslands og Bandaríkjanna um varanlega staðsetningu bandarísks liðsafla á Íslandi. Hins vegar sé ljóst að umhverfi öryggismála í Evrópu hafi breyst mikið á umliðnum árum og í því ljósi - eins og utanríkisráðuneytið hafi áður greint frá - hafi eðlilega átt sér stað samtöl um möguleg aukin umsvif Bandaríkjanna og annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins á norðanverðu Atlantshafi og Íslandi, í samræmi við sameiginlegar varnarskuldbindingar. 

Viðræður um flugstöðina

Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi vildi ekki staðfesta þessar fréttir en í yfirlýsingu sendiráðsins segir að bandarísk og íslensk stjórnvöld hafi átt í stöðugum viðræðum um flugstöðina í Keflavík. Bandaríkjamenn og Íslendingar séu nánir bandamenn innan NATO og eru stöðugt að endurmeta ástand öryggismála í Evrópu og um heim allan. Það mat sé byggt á síbreytilegum aðstæðum. 

Bandaríkjamenn tilkynntu nýverið að þeir ætli að fjórfalda fjárframlög til hernaðarviðbúnaðar í Evrópu vegna vaxandi ógnar af Rússum. Tíu ár eru síðan herstöð Bandaríkjamanna á Íslandi var lokað.