Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Engar upptökur að sækja til dómkirkjuprestsins

18.12.2018 - 12:12
Mynd með færslu
Sveinn Valgeirsson. Mynd:
Dómkirkjuprestur skilur ekki hvað hann á að geta upplýst um Klausturmálið, enda séu engar eftirlitsmyndavélar á Dómkirkjunni. Miðflokksmenn vilja leiða hann sem vitni til að undirbyggja mögulega málsókn gegn Báru Halldórsdóttur.

Í Héraðsdómi Reykjavíkur var í gær tekist á um beiðni fjögurra þingmanna Miðflokksins um það hvort þeir mættu leiða vitni fyrir dóminn í því skyni að afla upplýsinga um hvernig nákvæmlega það kom til að samtal þeirra á barnum Klaustri 20. nóvember var hljóðritað.

Mynd með færslu
 Mynd:
Bára Halldórsdóttir.

Bára átti aldrei að bera vitni

Ranghermt var í fréttum RÚV í gær að fjórmenningarnir færu fram á að Bára Halldórsdóttir gæfi skýrslu í málinu en að hún hefði neitað því. Hið rétta er að beiðnin lýtur ekki að vitnisburði Báru, heldur því að kalla þrjá aðra til vitnis og óska eftir að þeir afhendi upptökur úr öryggismyndavélum sem varpað geti ljósi á málið.

Það var þetta sem lögmenn Báru mótmæltu fyrir dómi í gær og töldu að skilyrði fyrir vitnaleiðslum áður en mál er höfðað væru ekki uppfyllt. Dómari boðaði Báru til dómþingsins til þess að hún væri upplýst um það sem fram færi, enda væri málshöfðun gegn henni til skoðunar. Fréttastofa biðst velvirðingar á þessu ranghermi.

Tímasóun að bera vitni, segir séra Sveinn

Lögmaður Miðflokksmanna lýsti því í gær að skjólstæðingar hans efuðust um að Bára hefði sagt allan sannleikann um það hvernig hún stóð að hljóðupptökunni og hvort hún var ein á ferð. Einn þeirra sem þeir vilja leiða sem vitni er dómkirkjuprestur, til að komast í myndavélaupptökur þaðan.

„Mín afstaða er nú sú að ég held að það hafi ekkert upp á sig,“ segir Sveinn Valgeirsson dómkirkjuprestur. Við erum ekki með neinar eftirlitsmyndavélar til að leita í. Eini eftirlitsbúnaðurinn sem eitthvað gæti tengst Dómkirkjunni væri hið alsjáandi auga drottins og hans alþunna eyra,“ segir Sveinn.

Það sé þó ekkert því til fyrirstöðu að hans mati að hann komi fyrir dóminn og greini frá þessu. „Ég get það alveg, en ég held að það sé nú tímaeyðsla.“

Hann segir að enginn hafi haft samband við hann til að spyrja hvort þessar eftirlitsmyndavélaupptökur séu til – mögulega hafi þó einhver spurt kirkjuvörðinn. „En ég skil ekki hvaðan þetta kemur,“ segir Sveinn.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Helgi Bernódusson.

Helgi veit lítið um hvað málið snýst

Annar sem Miðflokksmenn vilja leiða sem vitni er Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis. Hann segist í samtali við fréttastofu enn enga slíka beiðni hafa fengið og muni ekki taka afstöðu til hennar fyrr en þegar og ef að því kemur – enn viti hann ekkert um hvað málið snúist eða á hvaða forsendu slík beiðni kæmi fram.

Þá vilja þeir leiða forsvarsmann Klausturs sem vitni. Fyrir dómi í gær kom fram að þegar hefði verið búið svo um hnúta að öryggismyndavélaupptökur þaðan yrðu varðveittar lengur er almennt tíðkast.

Lögmenn Báru mótmæltu sem áður segir þessari kröfu og búist er við úrskurði um vitnaleiðslurnar í lok viku.