Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Engar þjóðhagsspár sem sýna kreppu í nánd

11.09.2018 - 20:40
Mynd: RÚV / RÚV
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir lítil tíðindi fyrir almenna launþega í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í dag, ef frá er talin hækkun barnabóta. Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, segir að horfa verði á heildarmyndina. Laun hafi almennt hækkað, þó að erfitt sé að lifa af lægstu launum. Ráðherrann segir af og frá að kreppa sé í aðsigi.

Rætt var við Ragnar Þór og Bjarna í Kastljósi í kvöld. Ragnar sagði að hækkun persónuafsláttar myndi varla duga fyrir pulsu og gosi, hækkunin sé um 540 krónur á mánuði. „Miðað við þá gjá sem hefur myndast á milli stjórnvalda og vinnumarkaðarins, út af meðal annars ákvörðunum kjararáðs og hvernig efsta lagið hefur skammtað sér með bónusum og launahækkunum, þá þarf miklu meira að koma til,“ sagði Ragnar Þór. Hann telur að ríkisstjórnin sé með einhver tromp uppi í erminni sem hún spili út þegar kjaraviðræður harðni í vetur. „Ég verð að vera bjartsýnn fyrir hönd félagsmanna okkar, að það sé eitthvað meira til skiptanna heldur en það sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu.“

Mynd með færslu
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Mynd: RÚV

Ráðherra segir brýnt að horfa á heildarmyndina

Fjármálaráðherra brást við orðum formanns VR með þeirri spurningu hvort verkalýðshreyfingin vilji ekki að stjórnvöld hækki persónuafsláttinn umfram vísitölu neysluverðs. Talað hafi verið um það undanfarna mánuði að það sé óeðlilegt viðmið. „Mér finnst líka mikilvægt að þegar menn tala um stöðu á vinnumarkaði almennt að það sé í heildarsamhengi,“ sagði Bjarni. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hafi vaxið mikið á undanförnum árum.  „Ég held að það sé orðið tímabært að menn nálgist þetta með einhverjum raunsæjum hætti. Það er ekki nokkur hagfræðileg innistæða fyrir því að við höldum áfram að auka kaupmátt með sama hætti og undanfarin ár.“

Þarf fólk á lægstu launum, öryrkjar og eldri borgarar ekki miklar útbætur ef það á að nást einhvers konar samstaða á vinnumarkaði í vetur?

„Við verðum áfram með að verkefni jú að lyfta undir með þeim sem hafa minnst á milli handanna. Það hefur verið gert mjög mikið átak á síðustu árum til að gera það. Þannig hafa lægstu laun farið úr að vera innan við 200.000 krónur, fyrir ekkert mjög mörgum árum síðan, upp í núna 300.000 króna lágmarkslaun. Það er veruleg framför verð ég að segja. Þó er enginn að segja að það sé segja að það sé auðvelt að draga fram lífið á lágmarkslaunum í þessu landi,“ sagði Bjarni.

Segir spár sýna hóflegan hagvöxt á næstunni

Aðspurður um blikur á lofti í ferðaþjónustu og fréttir af skuldabréfaútboði flugfélagsins WOW, þá sagði ráðherrann að það hafi komið viðvaranir þetta haustið og að það geti brugðið til beggja vona. Ekki sé hægt að ganga að því vísu að endalaust komi fleiri og fleiri ferðamenn til landsins. Þó verði að hafa í huga að stjórnvöld hafi búið vel í haginn og að vel hafi gengið að greiða niður skuldir. Ef til áfalls komi í ferðaþjónustunni verði brugðist við því.

„Ég hef enga trú á því að við séum að sigla inn í einhverja krepputíma. Það eru engar þjóðhagsspár um að við séum að sigla inn í slíka tíma. Myndin fram undan sýnir áframhaldandi hóflegan hagvöxt á mjög sterkum grunni.“ Komi til erfiðleika muni vera hægt að njóta góðs af því að hafa búið vel í haginn á góðærisárunum. Engin ástæða sé þó til þess að óttast sambærileg fjárhagsleg áföll og í bankahruninu fyrir áratug. Hafa verði í huga að rekstur flugfélaga víða um heim sé erfiður, ekki aðeins hér á landi.