Engar mikilvægar breytingar án mótstöðu

Mynd: Gunnar Hansson / Gunnar Hansson

Engar mikilvægar breytingar án mótstöðu

29.12.2017 - 19:30

Höfundar

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir var föstudagsgestur Mannlega þáttarins. Hún er höfundur bókarinnar Handan fyrirgefningar, ásamt Tom Stranger. Í bókinni fjalla þau um fyrirgefningu eftir nauðgun. Þau héldu fyrirlestur á vegum Ted samtakanna og síðan hafa þau ferðast um allan heim og kynnt bókina. Þórdís hefur einnig verið áberandi í #metoo-byltingunni svokölluðu.

„Bókin kom út hér á Íslandi í mars, en hún kom út í átta löndum á þessu ári, sem var ansi mikið havarí á stuttum tíma,“ segir Þórdís þegar hún er spurð út í árið sem er að líða. Hún og Tom ferðuðust til tuttugu og tveggja borga í kynningarstörfum. „Ég er búin að sitja svo mikið í flugvélum að ég er orðin heimavön þar og veit nákvæmlega hvar góði hafragrauturinn er, hann er hjá Icelandair.“

Mættust á miðri leið

Þegar Þórdís var sextán ára beitti þáverandi kærasti hennar, Tom Stranger, hana kynferðisofbeldi. Hún segir að eftir það hafi tekið við níu þögul ár full af sjálfsásökun, þöggun og skömm. Tom var skiptinemi á Íslandi, sem fór svo aftur til heimalands síns, Ástralíu, sem Þórdís segir hafa gert henni enn erfiðar fyrir. Níu árum síðar skrifaði hún honum bréf þar sem hún vildi skila skömminni sem hún hafði setið uppi með og velta ábyrgðina af sínum herðum yfir á hans. Og henni til mikillar undrunar svaraði hann bréfinu með játningu, þar sem hann gekkst við verknaðinum. 

Átta árum síðar, eftir talsverðar bréfaskriftir, ákváðu þau  að hittast í Suður-Afríku, mitt á milli Íslands og Ástralíu og skrifa um þessa reynslu og hvernig þau tókust á við hana. 

Það er svo mikið vald fólgið í því að raunverulega rjúfa þögnina.

Hún vonaðist til þess að það að skrifa um þessa reynslu og tala opinberlega um hana myndi leiða hana til lykta, fyrir hana sjálfa. Þannig var smiðshöggið rekið á þetta ferðalag í Suður-Afríku átta árum eftir að það hófst og sextán árum eftir verknaðinn.

Einstakt á heimsvísu

Þórdís veit ekki til þess að þolandi og gerandi hafi stigið fram og talað um reynslu sína á þennan hátt áður. „Þetta var einstakt á heimsvísu, þess vegna vakti þetta líka gríðarlega mikla fjölmiðlaathygli.“ Hún segir að óhjákvæmilega hafi þeirra framtak líka vakið upp úlfúð, það sé eðlilegt þegar stigið sé í fyrsta sinn fram í svona máli með þessum hætti. En meirihluti viðbragða hafi verið mjög jákvæður: „Enda var eiginlega búið að kalla eftir því árum og jafnvel áratugum saman að hulunni væri svipt af gerendum og við hættum að einblína á þolendur.“ Hún segir að þá sé hættan sú að umræðan fari að snúast um hluti sem skipta engu máli, eins og hvernig þolandinn hagaði sér, var klæddur eða var staddur og þar af leiðandi hverfur ábyrgð gerandans sjónum.

Þórdís og Tom fóru til fjölda landa þar sem afstaðan í þessum málum er mjög mismunandi og umræðan komin mislangt. Fjölmiðlaumfjöllunin var til dæmis mjög ólík í Þýskalandi og Svíþjóð, þar sem umræðan þykir vera komin hvað lengst á heimsvísu. „En auðvitað vorum við auðvitað að tala í þeim heimshlutum þar sem að þolendum er beinlínis refsað, eða þeir neyddir í hjónaband eða hreinlega hent í fangelsi eða þeir grýttir. Sem minnir mig alltaf á mín forréttindi að ég geti setið og deilt minni reynslu, bara eins og hér í dag, það er svo sannarlega ekki sjálfsagt.“

Ekki leiðin fyrir alla

Þórdís leggur ríka áherslu á að þó að þau Tom hafi farið þessa leið og náð að fara svona í gegnum þessa reynslu þá henti hún ekki öllum. „Það sem vakti aðallega fyrir mér var þessi umræða sem mér finnst stundum vanta, að við ræðum um gerendur sem manneskjurnar sem þeir eru, vegna þess að oft eru þeir sveipaðir ákveðinni skrímslahulu og þá er auðvelt að hlutgera þá og ýta þeim út á jaðarinn.“ Hún segir að meirihluti brota séu framin af ástvinum, vinum, fólki í fjölskyldunni, ættingjum, nágrönnum, skólafélögum og svo framvegis. Hún hafi því vonast til að þeirra saga væri innlegg í þá umræðu, til þess að færa hana nær, því þetta eru staðreyndir sem við erum feimin við að horfast í augu við.

Þórdís valdi óskalag sem spilað var eftir fyrri hluta viðtalsins, lagið Brave með söngkonunni Sara Bareilles, því henni finnst það tala til sín og þeirra sem hafa sýnt það hugrekki að rjúfa þögnina.

#höfumhátt verður að #metoo

Þórdís segir að það hafi farið af stað bylgja með umræðunni um uppreist æru nokkurra kynferðisbrotamanna, þegar aðstandendur og þolendur eins þeirra, Roberts Downey, sættu sig ekki við þöggun í þeim málum. Í kjölfarið hafi #metoo-byltingin farið af stað með miklum krafti og sér ekki enn fyrir endann á henni. Hún segir að hún hafi vissulega margoft verið hrædd við það að stíga fram og fletta hrúðrinu af því sári sem hennar mál var; hún geti verið til vitnis um það að það sé hægt, þrátt fyrir að það sé erfitt í samfélagi þar sem þögnin hefur verið yfirsterkari umræðu um þessi mál áratugum saman. Þess vegna hafi það verið henni gleðiefni þegar hulunni var svipt af umræðunni sem endaði með því að ríkisstjórnin féll. „Ég átti nú ekki von á því að í minni lífstíð ég ætti eftir að sjá ríkisstjórnina falla með einum eða öðrum hætti vegna kynferðisbrotamáls. Það fannst mér gríðarlega merkilegt.“

Hana óraði ekki fyrir því að einungis nokkrum mánuðum eftir að þau Tom rufu þögnina með bókinni og Ted fyrirlestrinum, hefðu milljónir þolenda einnig rofið þögnina.

Ég brosi þannig að mig verkjar í andlitið þegar ég segi frá þessu.

Hún heldur að samfélagið hafi verið komið að ákveðnum þolmörkum, að ekki hafi verið hægt að láta þöggun viðgangast lengur. Hún segir að umræðan hafi náð ákveðnu stigi á heimsvísu að það verið ekki aftur snúið og að #metoo byltingin eigi eftir marka ákveðin vatnaskil til framtíðar. „Þetta hefur verið alltumlykjandi, samofið menningunni sem við ölumst upp í þannig að við erum öll samsek um að hafa viðhaldið ástandinu að einhverju leiti.“

Horft til framtíðar

„Það er augljóst að núna er boltinn hjá körlum, nú eru þeir búnir að fá innsýn, ég held að marga hafi skort innsýn inn í það hvernig konur eru að upplifa áreitni og ofbeldi af þessu tagi.“ Hún segir að sér þætti vænt um að sjá næsta skref stigið af körlum, að þeir axli ábyrgð og geri það sem þeir geti til að uppræta þetta hugarfar. Því þegar upp er staðið sé þetta viðhorfsvandi sem allir þurfi að vinna saman í að uppræta og það kosti mikla vinnu. Það þarf að endurskoða tungutak, hvaða brandarar viðgangist, vinnustaðamenningu og svo framvegis til þess að allir geti blómstrað.

Stend í þakkarskuld við þær sem hafa rutt veginn

„Ég hef fengið minn skerf af mótlæti,“ segir Þórdís, þegar hún er spurð út í reynslu annarra kvenna sem hafa verið í farabroddi í báráttunni gegn kynbundinni mismunun. Hún nefnir sem dæmi Sóleyju Tómasdóttur sem segist hafa þjáðst af áfallastreituröskun eftir hafa staðið í víglínunni til langs tíma. „Á tímabili var ég með öryggisvörð í vor þegar styrinn stóð sem hæst um mig og meðhöfund minn og okkar framtak.“ En hún segist líka hafa fengið mikinn stuðning, mun meira af honum en neikvæðum viðbrögðum.

Ég hef alltaf sagt mér sjálfri að engar mikilvægar breytingar í mannkynssögunni gerast án mótstöðu.

Hún segir það vera til marks um að þá sé hún að gera eitthvað rétt og að velta við réttu steinunum. Hún leggur mikla áherslu á að hún og í raun allt fólk standi í þakkarskuld við þær konur sem ruddu veginn. „Ég stend hér á öxlunum á risum og verð þeim eilíflega þakklát.“

Viðtalið við Þórdísi má hlusta á í spilaranum hér fyrir ofan.