Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Engar athugasemdir við fjölgun dómara

05.05.2015 - 22:53
Hæstiréttur Íslands.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Allsherjar-og menntamálanefnd leggur blessun sína yfir frumvarp Ólafar Nordal, innanríkisráðherra, um að dómurum við Hæstarétt verði fjölgað tímabundið þann 1. september úr níu í tíu. Heimildin til að skipa tíunda dómarann fellur úr gildi á gamlársdag á næsta ári.

Dómurum við Hæstarétt verður þó ekki fækkað þá heldur verður einfaldlega ekki skipað í fyrsta dómaraembættið sem losnar.

Allsherjar- og menntamálanefnd skilaði áliti sínu nú síðdegis þar sem hún leggur til að frumvarp ráðherrans verði samþykkt óbreytt. Nefndin fékk á sinn fund Bryndísi Helgadóttur, skrifstofustjóra hjá innanríkisráðuneytinu og Þorstein A. Jónsson, skrifstofustjóra Hæstaréttar.

Nefndin segir að við umfjöllun um frumvarpið hafi komið fram að mikið álag væri á Hæstarétti sökum málafjölda - mál væru þyngri í vinnslu en áður. Þá væru málum sem eiga rætur að rekja til bankahrunsins enn ekki lokið.

Nefndin vísar auk þess til ársskýrslu Hæstaréttar en þar kom meðal annars fram að kærur í einkamálum væru 33% fleiri en að meðaltali á árunum 2008 til 2013. Hún bendir enn fremur á að árið 2014 hafi skráðum málum fjölgað um 36 frá árinu áður - þau hafi verið 13% fleiri en meðaltal áranna 2008 til 2013.

Hæstaréttardómurum var fjölgað úr níu í tólf fyrir fjórum árum vegna landsdóms-málsins og málum sem tengdust bankahruninu. Þeir urðu síðan aftur níu í mars í fyrra þegar tveir dómarar, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir, hættu.

 

Fram kemur umsögn fjármálaráðuneytisins að kostnaður við einn dómara í Hæstarétti nemi rúmum 22 milljónum króna. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV