Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Enga fordóma 900-9906

27.01.2014 - 12:05
Mynd með færslu
 Mynd:

Pollapönk – flytjendur og höfundar lags og texta 

Pollapönk er hljómsveit fyrir alla, konur og kalla, krakka með hár og kalla með skalla. Sveitin var stofnuð 2006 og hafa komið út þrjár plötur undir hennar formerkjum. Fyrsti geisladiskurinn hét einfaldlega Pollapönk og var útskriftarverkefni hafnfirsku leikskólakennaranna Heiðars Arnar Kristjánssonar og Haralds F. Gíslasonar frá Kennaraháskóla Íslands. Tónlistin féll strax í góðan jarðveg, jafnt meðal barna og fullorðinna. Stuttu síðar gengu Arnar Gíslason, sem er líka Hafnfirðingur, og Norðfirðingurinn Guðni Finnsson til liðs við sveitina, en þeir eru báðir einnig í hljómsveitunum Dr. Spock og Ensími.

Markmiðið með Pollapönki er að vera hljómsveit fyrir börn sem fylgt er eftir af sama metnaði og ef um hljómsveit fyrir fullorðna væri að ræða en einnig að búa til tónlist og texta sem bæði börn og fullorðnir geta haft gaman af. Heiðar og Halli voru í annarri hljómsveit fyrir löngu síðan sem kom fyrst fram opinberlega á skemmtistað sem hét Valgeir á grænni treyju en í miðju prógrammi voru þeir vinsamlegast beðnir um að hætta. Um það bil þrír gestir voru á staðnum. Síðan þá hefur frægðarsólin stigið töluvert og mörg af lögum Pollanna hafa náð vinsældum á undanförnum árum. Meðal þeirra sem hlotið hafa mesta hlustun eru Leyniskápurinn, Þór og Jón eru hjón og 113 vælubíllinn sem hefur verið spilað yfir 44 þúsund sinnum á youtube.

Lagið Enga Fordóma fjallar um fordóma gagnvart náunga sem stamar. Flestir þekkja dæmi um börn og jafnvel fullorðna sem verða fyrir stríðni vegna ýmissa talgalla og það er eitthvað sem Pollarnir vilja ekki sjá. Með þessu lagi vilja þeir leggja sitt af mörkum til að uppræta þá samfélagslegu vá sem fordómar og einelti eru.

 

Enga fordóma

Hey! Lífið er of stutt
Fyrir skammsýni

Úr vegi skal nú rutt
Allri þröngsýni

Hlustið undireins

Inn við bebebebebebe ...
beinið erum við eins

Og það bobobobobo-borgar
Sig að brosa

Burtu með fordóma
Og annan eins ósóma
Verum öll samtaka
Þið verðið að meðtaka
Þótt ég hafi talgalla
Þá á ekki að uppnefna
Þetta er engin algebra
Öll erum við eins

Hey! Hvort sem þú ert stór
eða smávaxin

Hvort sem þú ert mjór
eða feitlaginn

Hlustið undireins
Inn við bebebebebebe ...
beinið erum við eins

Og það bobobobobo-borgar
Sig að brosa

Burtu með fordóma ...

Bababababab ...                   

Burtu með fordóma ...

Lalalalalalalala ...

Burtu með fordóma ...