Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Endurskoðun rammaáætlunar þegar hafin

25.05.2013 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Sigurður Ingi Jóhannsson, nýr umhverfisráðherra segir að vinna innan ráðuneytis sé nú þegar hafin við endurskoðun Rammaáætlunar. Breyting á stöðu í það minnsta átta virkunarkosta er í skoðun.

Rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða var samþykkt á Alþingi í janúar í mikilli ósátt við stjórnarandstöðu. Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar kemur fram að endurskoða eigi áætlunina. Sigurður Ingi segir vinnu þegar hafna.  „Það er ljóst að það var stefna beggja ríkisstjórnarflokka að byggja rammaáætlun á niðurstöðu faghópana og það eru nokkrar leiðir til þess og það er verið að skoða það í ráðuneytinu,“ segir hann. „Við settum það í gang strax í gær.“

Sigurður segir að verið sé að skoða að breyta stöðu í það minnsta átta virkjunarkosta. Sex þeirra færði fyrri ríkisstjórn úr nýtingarflokki í bið. Þar af eru þrír í Þjórsá, það eru Urriðafossvirkjun, Holtavirkjun og Hvammsvirkjun og svo Skrokkölduvirkjun í Köldukvísl og tveir áfangar í Hágönguvirkjun. Nú bætast svo í það minnsta tveir við vegna gagnaskorts faghópa. „Í rammaáætluninni voru þetta nú fyrst og fremst sex virkjanakostir sem voru um að ræða sem voru færðir úr nýtingarflokki í bið og síðan eru einir tveir sem ekki fengu viðhlýtandi heildarniðurstöðu,“ segir Sigurður.

„Annars vegar týndust gögn vegna Hólmsárvirkjunnar neðri við Atley og hins vegar voru ekki komin ítarleg gögn varðandi Hagavatnsvirkjun sem síðar hafa komið fram.“

Í samtali við fréttastofu bendir Svandís Svavarsdóttir, fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, á að væntanlega þurfi sérstaka lagabreytingu til að breyta rammaáætlun. Sigurður segir nokkrar leiðir mögulegar. „Það er annars vegar hægt að fella þingsályktun úr gildi og setja fram nýja. Það er líka hægt að vísa málinu inn í verkefnisstjórn að nýju og svo er einnig hægt að fara fram með lagabreytingu á meðferð rammaáætlunar þar sem engan óraði fyrir því að, þegar menn stóðu saman að þeirri breytingu, að hún yrði nýtt með þeim hætti sem fyrrverandi stjórnarflokkar gerðu.“