Endurreikna 2000 af 46 þúsund lánum

20.04.2013 - 16:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Af 46 þúsund gengistryggðum lánum hjá Landsbankanum verða um 2000 fasteignalán endurreiknuð í samræmi við tvo Hæstaréttardóma frá síðasta ári um gildi fullnaðarkvittana í gengislánasamningum. Þar af er búið að leiðrétta 800.

Aðrir bankar endurreikna fleiri lán

Landsbankinn endurreiknar mun færri lán en hinir stóru bankarnir. Aðeins verða leiðrétt fasteignalán einstaklinga. Um 3000 fasteignalán eru í lánasafni Landsbankans. Þúsund þeirra uppfylla ekki skilyrði til endurútreiknings samkvæmt upplýsingum frá bankanum. Landsbankinn ætlar ekki að svo komnu máli að leiðrétta bílalán eða önnur styttri lán. Bankinn vill bíða niðurstöðu Hæstaréttar í dómsmáli sem gæti skýrt þessi atriði. Íslandsbanki endurreiknar 15 þúsund ólögmæt gengislán, bæði lán fyrir fasteignum og bílum. Bankinn hefur leiðrétt 6000 lán. Hjá Arion banka er stefnt að því að endurreikna öll gengistryggð lán, eða um 4000. Búið er að endurreikna um 2400 lán. Engin gengistryggð bílalán eru í lánasafni bankans.

Lánastofnanir rökstyðji niðurstöður

Fjármálaeftirlitið sendi í vikunni lánastofnunum tilmæli um samskipti við lántakendur. Hluti lántakenda hefur undanfarið fengið bréf þess efnis að lán þeirra séu lögleg erlend lán og þau verði því ekki endurreiknuð. Til að mynda hefur Landsbankinn sent slík bréf. Fjármálaeftirlitið beinir því til að lánastofnana að rökstyðja á hvaða forsendum slíkar niðurstöður séu byggðar. Mælst er til þess að vísað sé í dómafordæmi og útskýrt með hvaða hætti hlutaðeigandi lán heyri undir það. 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi