Endurhugsum neysluna

Mynd með færslu
 Mynd:

Endurhugsum neysluna

14.02.2019 - 10:49
Í þættinum Náttúrulaus á mánudag fjallaði Sigrún Eir um neyslu og neysluvenjur. Gestur hennar var Dögg Patricia Gunnarsdóttir fatahönnuður sem hefur verið að skoða nýjar leiðir til að sporna við neyslu í tískuiðnaðinum.

Sigrún Eir Þorgrímsdóttir skrifar:

Neysla er nokkuð sem fæst okkar geta komist hjá. Hvern dag nýtum við okkur auðlindir Jarðarinnar á einhvern hátt hvort sem við hugsum út í það eða ekki. En nú erum við komin á þann stað að það skiptir miklu máli að við öll séum meðvituð um neyslu okkar og hvernig er hægt að stýra henni í umhverfisvænni áttir.

Síðustu ár hefur það færst í aukana að fólk sæki í umhverfisvænni vörur þar sem ekki er hægt að hætta notkun. Má þar á meðal nefna bambustannbursta sem taka við af plastinu og tannkremstöflur eða duft sem kemur í stað kremsins í plasttúpunum. Þá hafa skiptifatamarkaðir orðið vinsælir hérlendis og má þar á meðal nefna skiptifatamarkaðinn á Loft Hostel sem er haldinn síðasta miðvikudag hvers mánaðar. Þangað er öllum velkomið að mæta með fötin sín og skipta við aðra. Markaðinn má finna undir merki Swap til you Drop og hægt er að finna viðburðinn á Facebook.

Vilji til þess að nýta föt áfram í stað þess að henda þeim, er mögulega ekki ný frétt fyrir marga en mikið hefur verið um tækifæri til þess að koma henni á framfæri undanfarið. Fatamarkaðir hérlendis hafa að mestu leyti verið fyrir föt fyrir fullorðna en nýlega var Barnaloppan opnuð í Reykjavík. Þar er hægt að leigja bás og selja barnaföt, dót og annað sem fylgir börnum og framlengja þannig líf fatnaðarins. Einnig má benda á að Rauði krossinn tekur við öllum textíl og fatnaði, sama hvernig ástandið á honum er.

Samhliða þessari þróun, þar sem einstaklingurinn er orðinn meðvitaðri um áhrif sín á jörðina, hafa fyrirtæki séð sér í hag að auglýsa sig sem umhverfisvænan valkost. Þar má sjá keðjur sem lifa á svokallaðari fast fashion, eða hraðtísku, þar sem árinu er ekki skipt eftir árstíðum heldur virðist koma ný fatalína í hverri viku eða á mánaðarfresti. Þá bjóða fyrirtæki upp á að viðskiptavinir komi með eldri föt í búðina og nýta vöruna áfram eða merkja valdar vörur sem umhverfisvænni valkost en aðrar.

Að því sögðu fara fyrirtæki mismikið eftir því sem þau segja út á við en jafnvel þó svo að þau bjóði upp á endurnýtingu má setja spurningarmerki við hversu umhverfisvæn þau eru í raun og veru. Þessi stórfyrirtæki lifa og nærast á hrað-tískunni sem gengur út á að einstaklingurinn noti fötin sín lítið og skipti þeim fljótlega út fyrir nýrri.

Með aukinni meðvitund hafa fyrirtæki þurft að opna sig gagnvart neytandanum og má finna upplýsingar víðs vegar um netið þar sem fyrirtækjum eru gefnar umsagnir eða einkunnir eftir ákveðnum stöðlum. Þar á meðal er smáforritið Good on You (í boði fyrir ioS og Android) sem býður notendum upp á að leita eftir merki/fatabúð og sjá hversu vel þau standa sig í eftirfarandi flokkum: umhverfisþáttum, dýravelferð og launþegamálum. Síður og smáforrit sem þetta gefa þá einstaklingum tækifæri til þess að finna upplýsingar um fyrirtæki sem koma ekki frá þeim sjálfum.  

Kvikmyndir og þættir sem fjalla um neyslu og/eða fataiðnaðinn:

The True Cost (2015, Andrew Morgan) – Heimildarmynd um vinnuaðstæður þeirra sem búa til fötin.

Tidying Up with Marie Kondo (2019, Marie Kondo) – Heimildarþættir um aðferð Marie Kondo þar sem hún hjálpar fólki að skipuleggja heimili sín og hugsa um eigur sínar á nýjan hátt.

Minimalism (2015, Matt D‘Avella) – Heimildarmynd um minimalisma

Hlustaðu á nýjasta þáttinn af Náttúrulaus í spilaranum á ruv.is, í RÚV-appinu eða í podcast-appinu. Þátturinn er á dagskrá í RÚVnúll streyminu alla mánudaga klukkan 21.