Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Endurgera Rétt í Bandaríkjunum

10.09.2012 - 11:09
Mynd með færslu
 Mynd:
Íslenska sjónvarpsþáttaröðin Réttur, sem Saga Film framleiðir, verður endurgerð í Bandaríkjunum. NBC-sjónvarpsstöðin hefur keypt réttinn og 20th Century Fox TV framleiðir þættina sem hefur verið gefið nafnið Ritter. Framleiðandi sjónvarpsþáttanna 24 kemur að gerð þáttanna vestanhaf

Vefurinn Deadline.com greinir frá þessu. Sigurjón Kjartansson, sem skrifaði handritið að þáttunum, segir í samtali við fréttastofu að Bandaríkjamennirnir hafi heillast af aðalpersónu þáttanna, Loga Traustasyni, sem er lögfræðingur með morð á bakinu og glímir við alkahólisma. Sigurjón viðurkennir hins vegar að honum hefði ekki dottið í hug að sú persóna myndi heilla og framleiðendum Réttar hjá Saga Film datt ekki einu sinni í hug að bandarískir framleiðendur myndu gleypa við þeirri persónu. 

Nafnið Ritter er nokkuð líkt íslenska heitinu en að sögn Sigurjóns mun aðalpersónan, hin ameríski Logi Traustaon, heita Ritter.

Howard Gordon, sem meðal annars hefur framleitt sjónvarpsþættina 24 og Homeland, og Alex Cary, sem skrifaði handritið að Homeland-þáttunum, stýra framleiðslunni í Bandaríkjunum og hefur þáttunum verið lýst sem Jerry Maguire í réttarsal. Sem er þá vísun í samnefnda mynd Tom Cruise.