Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar:
Tækni er órjúfanlegur hluti lífs okkar allra. Við lifum og hrærumst í tæknilegu samfélagi, samskipti okkar fara að miklum hluta fram í gegnum tækni og afþreying okkar sömuleiðis. Vinna okkar reiðir sig á að við beitum orku okkar yfir tíma í gegnum svokölluð framleiðslutæki, hvort sem við erum pistlahöfundar eða námuverkamenn eða bílstjórar eða stærðfræðingar. Svo mikið er augljóst: við erum tæknilegar verur. En hvað er þessi tækni þegar öllu er á botninn hvolft? Hvað erum við að gera þegar við þróum tækni? Hvert er lokatakmark tækninnar og hversu langt ætti hún að ganga? Þessum spurningum hyggst ég velta fyrir mér í pistli dagsins, jafnvel þótt endanlegt svar kunni að vera vandfundið.Byrjum á því að gera heiðarlega atlögu að skilgreiningu á tækni.
Kristöllun þekkingar
Tækni er, að ég tel, tvenns lags: í fyrsta lagi er tækni hugræn eða fræðileg — einskonar kristöllun þekkingar á reynsluheiminum inn í raunvísindalegan fastan punkt, eins og hvernig samansöfnuð þekking okkar á hreyfingum himintunglanna varð að eðlisfræðilegum kenningum Newtons og síðar Einsteins. Í öðru lagi er tækni beiting okkar á þessum vísindalegu vendipunktum í efnisheiminum, eins og þegar við notfærum okkur fyrrnefndar kenningar til þess að skjóta eldflaugum og gervitunglum áreiðanlega og að mestu örugglega út í geiminn. Þegar ég segi að tækni sé tvenns lags meina ég það þó í þeim skilningi að á hverjum peningi eru tvær hliðar—önnur væri líflaus og hreyfingarsnauð án hinnar. Ef enginn útfærði tæknilega þekkingu í tæknibúnaði væri þekkingin eiginlega ekki tæknileg, og ef enginn færi eftir tæknilegri þekkingu í smíðum tæknilegs búnaðar væri búnaðurinn varla tæknilegur heldur nema fyrir tilviljanir.