Endalok tækninnar og eilíft líf

Mynd: EPA / EPA

Endalok tækninnar og eilíft líf

13.09.2017 - 12:02

Höfundar

Karl Ólafur Hallbjörnsson fjallar í pistli sínum um lokamarkmið og ystu mörk hins almenna hugtaks okkar um tækni sem og hvernig hún varpar ljósi á mannleikann sjálfan.

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar: 

Tækni er órjúfanlegur hluti lífs okkar allra. Við lifum og hrærumst í tæknilegu samfélagi, samskipti okkar fara að miklum hluta fram í gegnum tækni og afþreying okkar sömuleiðis. Vinna okkar reiðir sig á að við beitum orku okkar yfir tíma í gegnum svokölluð framleiðslutæki, hvort sem við erum pistlahöfundar eða námuverkamenn eða bílstjórar eða stærðfræðingar. Svo mikið er augljóst: við erum tæknilegar verur. En hvað er þessi tækni þegar öllu er á botninn hvolft? Hvað erum við að gera þegar við þróum tækni? Hvert er lokatakmark tækninnar og hversu langt ætti hún að ganga? Þessum spurningum hyggst ég velta fyrir mér í pistli dagsins, jafnvel þótt endanlegt svar kunni að vera vandfundið.Byrjum á því að gera heiðarlega atlögu að skilgreiningu á tækni.

Kristöllun þekkingar

Tækni er, að ég tel, tvenns lags: í fyrsta lagi er tækni hugræn eða fræðileg — einskonar kristöllun þekkingar á reynsluheiminum inn í raunvísindalegan fastan punkt, eins og hvernig samansöfnuð þekking okkar á hreyfingum himintunglanna varð að eðlisfræðilegum kenningum Newtons og síðar Einsteins. Í öðru lagi er tækni beiting okkar á þessum vísindalegu vendipunktum í efnisheiminum, eins og þegar við notfærum okkur fyrrnefndar kenningar til þess að skjóta eldflaugum og gervitunglum áreiðanlega og að mestu örugglega út í geiminn. Þegar ég segi að tækni sé tvenns lags meina ég það þó í þeim skilningi að á hverjum peningi eru tvær hliðar—önnur væri líflaus og hreyfingarsnauð án hinnar. Ef enginn útfærði tæknilega þekkingu í tæknibúnaði væri þekkingin eiginlega ekki tæknileg, og ef enginn færi eftir tæknilegri þekkingu í smíðum tæknilegs búnaðar væri búnaðurinn varla tæknilegur heldur nema fyrir tilviljanir.

epa06031339 (FILE) - The Facebook icon is displayed through glasses in Taipei, Taiwan, 28 April 2017 (reissued 16 June 2017). The social media giant on 16 June 2017 said it was introducing an Artificial Intelligence (AI) to identify and tackle &#039
 Mynd: EPA

Stækkun sjálfsins

Skilgreining okkar er þó enn ófullkomin. Tækni sem slík er hvorki þekkingin sem slík né heldur búnaðurinn. Tækni er fremur þessi stöðuga viðleitni okkar í átt að frekari áhrifum, bætingu á möguleikum okkar og frelsi í alheiminum. Allt felur þetta í sér stækkun sjálfsins, útvíkkun þess. Kristöllun þekkingarinnar og útfærsla hennar í búnaði eða tækni eins og við skiljum hana frá degi til dags eru því aðeins statískar birtingarmyndir þessarar hugmyndar okkar um tækni, hver þeirra hverfandi inn í hina eins og peningi sem hefur verið kastað. Það að greina tæknilega ferlið í tvær mismunandi hliðar er því ef til vill ekki svo ósvipað því að taka ljósmyndir af sinni hvorri hlið krónunnar sem notuð var í peningskastinu og nota þessar tvær ljósmyndir sem skilgreiningu á peningskastinu sjálfu, útilokandi þar með hreyfingu krónunnar upp og niður í loftinu og snúninginn um sjálfa sig er hún rís og fellur.

Að brjóta alheiminn undir viljann

Tækni er því mannlegt ferli fremur en þekking og útfærsla hennar. Tæknin er þessi þrá okkar til þess að gera það sem líkami okkar er ófær um, fýsnin í að brjóta alheiminn undir vilja okkar, gera raunveruleikann að okkar eigin raunveruleika, skilgreina reglurnar sjálfar. Ég meina ekki þar með að lögmál efnisheimsins séu hrunin og hverfandi í hlutfalli við tæknilega þróun okkar, heldur að ferli okkar sem tæknilegar verur sé alltaf í átt að því að samsama okkur með þessum lögmálum: í staðinn fyrir að við séum stöðugt að vinna á móti þeim ættum við að verða formgerving þessarra lögmála, hin sanna meðvitund alheimsins. Í stað þess að falla til jarðar samkvæmt lögmálum þyngdaraflsins gegn vilja ættum við að finna leið til þess að samræma vilja okkar og lögmál alheimsins.

Fjarlægðir sigraðar

Tökum nokkur dæmi. Hvert er tæknilegt eðli snjallsímans? Snjallsími er í grunninn sími sem inniheldur í sér og tvinnast saman við tölvu. Sími auðveldar okkur samskipti með því að neita fjarlægðum milli meðvitunda, magna upp raddir okkar þannig að hver sem er með farsíma geti heyrt þær. Tölvur eru kraftmiklar og fjölhæfar reiknivélar, framlengingar á því hvernig við tökum við og vinnum úr upplýsingum um magn og stærðir, styttri leiðir um erfiða dali hugans. Snjallsími er allt þetta: fjarlægðareyðir, hugsunarhraðall, tímasparnaðarvél. Snjallsímarnir eru ekki meira en nýjasta fótsporið í hugsanlega óendanlegu þrammi tækninnar fram á við.

young girl with backpack, tourist traveler on background panoramic view of the mountain. Mock up for text message. Female hands using smartphone
 Mynd: Porapak Apichodilok - Pexels

Ótæknileg beiting tækni

Þessa hugmyndir vekja upp með mér spurninguna um það hvort mögulegt sé að beita tæki ótæknilega. Þetta er vandmeðfarin spurning. Kjarnorkusprengjur, til að mynda, eru vissulega tæki, en hvernig notum við þessi tæki? Ef við notum kjarnorkusprengju til þess að sprengja aðra þjóð í loft upp erum við ef til vill að stækka við okkar eigin möguleika, auka við okkar eigin kraft, gera okkur sterkari—eða hvað? Hver græðir á því að milljónir farist í eldhafi og geislun, staðir við jörðu, jarðir verði óbyggilegar til endaloka? Á þennan hátt mætti færa rök fyrir því að sumri tækni sé mögulegt að beita ótæknilega, ef við höldum okkur við fyrri skilgreiningu okkar á tækni. Það er þó engin mótsögn falin í þessari niðurstöðu, því ef tæknin er mannlegt ferli getur henni farið aftur jafnt sem áfram. Einmitt vegna þess að hún er mannlegt ferli er hún brothætt: tækni mun ekki lifa lengur en mannkynið.

Að gera alheiminn mannlegan

Að lokum skulum við hugsa stuttlega um hið fyrrnefnda lokatakmark tækninnar. Ég tók smá forskot á það þegar ég minntist áðan á að í staðinn fyrir að lifa með lögmál heimsins í mótsögn við okkar eigin ætlanir ættum við að sameinast þessum lögmálum, ljá þeim viðfangsmeðvitund okkar og vilja, verða eitt með alheiminum sjálfum. Það er það sem er lokamarkmið tækninnar, að ég held: að gera alheiminn mannlegan, eða að gera manninn að alheiminum. Það kemur niður á því sama. Það er svo sosum allt annað mál hvort þetta muni nokkru sinni takast, að maðurinn verði einn með allri tilvistinni. Kannski er það bara ómögulegt. En það er hugmyndin um tækni sem við erum að velta fyrir okkur fremur en framtíð mannkynsins og endalok þess.

Mynd með færslu
 Mynd: Pexels - Pixabay

Hver þarf Guð?

Í hugmyndinni um tækni mætti því segja að búi ákveðin uppstigning mannsins: tæknin er sú trú að ekkert sé innan alheimsins sem maðurinn sem slíkur hefur ekki tök á að sölsa undir vald sitt, tæknin er trúin á sköpunarkraft og skilningsmátt, trúin á mögulega einingu allra hluta, jafnvel trúin á endurholdgun og eilíft líf í gegnum hyggjuvitið eitt. Hver þarf Guð þegar allt er innan seilingar? Nei, ég ætla ekki að ganga svo langt að halda slíku fram í fullri alvöru. Hins vegar vil ég benda skýrt á að það eru sambærilegir hugmyndafræðilegir kraftar að verki í báðum hugmyndum: kosmískur lokatilgangur, óendanlegur sköpunarmáttur, algjör eining.

Hver sem skoðun ykkar á þessari vangaveltu er, kæru hlustendur, finn ég til þakklætis í garð þeirra sem þróuðu tæknina sem gerir mér kleift að miðla henni til ykkar allra samtímis, hvar sem þið eruð að hlusta. Það væri ekkert grín að fara á milli ykkar allra og segja hverju ykkar fyrir sig romsuna frá byrjun til enda. Stundum lýstur það mann eins og þruma hvað maður er fær um margt tækninnar vegna—og samtímis hvernig aðrir eru ekki jafn færir um það vegna þess eins hvar og hvenær þau fæddust.

Endanlegt lokasvar

Tækniþróun er þó, eftir allt saman, aðeins einn angi mannlegrar tilvistar, og þótt hann taki mikið pláss í meðvitundum okkar er hún ekki sá mikilvægasti heldur. Frægt er atriðið orðið úr bókaflokki Douglas Adams, The Hitchhiker’s Guide To The Galaxy eða Leiðarvísir puttaferðalangsins um vetrarbrautina, þar sem ofurtölva var forrituð til að reikna út endanlegt lokasvar við spurningunni um tilgang lífsins. Eftir fleiri milljónir ára umhugsunar kemst tölvan að því að svarið sé fjörutíu og tveir. Auðvitað er slíkt svar vitaskuld gagnslaust án frekara samhengis, og sannleikskornið í sögu Adams er að mestu máli skiptir hvernig við spyrjum spurningarinnar fremur en hvernig við svörum henni. Við elskum, hugsum og brosum allt án svo mikils sem tæknisnefils, og kannski eru það þessir hlutir, eftir allt saman, sem eru kosmíski lokatilgangurinn, einingin, sköpunarmátturinn, án þess að tækni komi málinu við á nokkurn skapaðan hátt.

Karl Ólafur Hallbjörnsson flutti pistilinn í Lestinni á Rás 1, 23. ágúst.