Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Endalaus ófriður í langri sögu Aleppó

07.10.2016 - 15:30
Mynd: Wikimedia Commons / Wikimedia Commons
Stríð og umsátur eru fornum strætum sýrlensku borgarinnar Aleppó alls ekki framandi. Borgin er ein elsta borg í heimi og elstu heimildir um mannabyggðir þar eru meira en 5000 ára gamlar. Á þessum þúsundum árum hafa borgarbúar í Aleppó ótal sinnum áður þurft að þola ófrið og blóðsúthellingar.

Aleppó, sem lengi var miðstöð viðskipta og iðnaðar í Sýrlandi og fjölmennasta borg landsins, hefur orðið hvað verst úti í sýrlensku borgarastyrjöldinni. Eftir fjögur ár af mannskæðum bardögum og umsátri er ástandinu í borginni þessa stundina líkt við sláturhús

Hún er jafnframt meðal elstu borga heims og þátturinn Í ljósi sögunnar á Rás 1 rekur að þessu sinni langa og merka sögu borgarinnar. Heyra má allan þáttinn í spilaranum hér að ofan. Hann er sá fyrri af tveimur.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem borgarbúar í Aleppó þurfa að þola stríðsátök og hörmungar. Á undanförnum fimm þús­und árum hafa ótal þjóðir og inn­rás­ar­herir herjað á Aleppó, allt frá Hittítum til Tímúrs halta.

Borgin hefur þó alltaf verið á sínum stað, og aftur og aftur verið reist úr rústunum eftir stríð og eyðileggingu. Þrautseigjuna má hún meðal annars þakka staðsetningu sína, í hæðum Norður-Sýrlands. Aleppó er í þjóðleið mitt á milli Miðjarðarhafs og Mesópótamíu, var viðkomustaður á silkileiðinni og þar hafa verslun og viðskipti lengi blómstrað.

Umfjöllun Leðurblökunnar um dularfullt hvarf hins svokallaða Aleppó-handrits, sem nefnt er í þættinum, má finna hér

Í ljósi sögunnar er á dagskrá Rásar 1 á föstudagsmorgnum klukkan 09.05 og endurfluttur á laugardögum að loknum kvöldfréttum klukkan 18.10. Alla fyrri þætti má nálgast á síðu þáttarins eða í hlaðvarpi Ríkisútvarpsins