„Ég byrjaði fyrir fjórum árum, þá voru mánaðarleg „open-mic“ kvöld á Ellefunni það eina sem var í gangi,“ segir Bylgja í samtali við Menningarvef RÚV. „Við vorum að gera Tinnu og Tótu á þessum tíma og ég hafði einhver veginn óvart skrifað uppistands-sett sem ég ákvað bara að prufa,“ segir hún. Tinna og Tóta var samstarfsverkefni Bylgju og Önnu Hafþórsdóttur leikkonu en þær fóru á kostum á samfélagsmiðlum í karakter sem ástríðufullar áhugakonur um útlit og líkamsrækt.
Greindist með æxli í lok árs
Bylgja flutti til Edinborgar í byrjun árs. Hún segist hafa átt nokkra erfiða mánuði í lok síðasta árs þegar hún brotnaði á báðum handleggjum. Tveimur dögum síðar lést vinkona hennar og mánuði seinna greindist hún með æxli í leghálsi. „Þegar ég komst að því að það var góðkynja og eftir að það var sótt hugsaði ég: Æi, heyrðu. Nú flyt ég.“ Hún keypti sér miða í framhaldinu aðra leið til Edinborgar. Bylgja er í dag undir eftirliti lækna í Edinborg en æxlið hefur ekki látið á sér kræla á ný. „Það sparkar í rassgatið á manni að fá smá cancer-scare,“ segir hún.
Aðspurð segir hún að töluverð líkindi séu milli Reykjavíkur og Edinborgar. „Já. Edinborg er lítil á alþjóðaskalanum og maður er rosa fljótur að kynnast fólki. Svo er hægt að labba allt líka,“ segir Bylgja. „Eins og Ísland - bara betra veður,“ bætir hún við glettin.
Subbu fullar á Prikinu
Bylgja og Snjólaug Lúðvíksdóttir standa um þessar mundir fyrir sýningunni Something Icelandic á klúbbi í Edinborg. „Snjólaug var búin að vera í London í fjögur ár að fikta við uppistand og flutti svo heim. Hún frétti að það væri einhver ný stelpa á senunni heima líka og beisiklí bauð mér á deit,“ segir Bylgja aðspurð um hvernig leiðir þeirra lágu saman. „Við hittumst á Prikinu, fengum okkur að borða og urðum subbu fullar. Höfum svo bara verið að gera það síðan.“