Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Elti drauminn eftir góðkynja greiningu

Mynd með færslu
 Mynd: Amy Lou - Einkasafn

Elti drauminn eftir góðkynja greiningu

09.08.2018 - 14:51

Höfundar

Bylgja Babýlons hóf uppistandsferil sinn á Íslandi fyrir fjórum árum síðan en hefur síðustu vikur staðið fyrir sýningum í Edinborg og sýnt fyrir troðfullu húsi ásamt uppistandaranum Snjólaugu Lúðvíksdóttur. Bylgja er búsett í Edinborg en eftir erfiðan tíma í lok seinasta árs ákvað hún að skipta um umhverfi og láta drauminn rætast.

„Ég byrjaði fyrir fjórum árum, þá voru mánaðarleg „open-mic“ kvöld á Ellefunni það eina sem var í gangi,“ segir Bylgja í samtali við Menningarvef RÚV. „Við vorum að gera Tinnu og Tótu á þessum tíma og ég hafði einhver veginn óvart skrifað uppistands-sett sem ég ákvað bara að prufa,“ segir hún. Tinna og Tóta var samstarfsverkefni Bylgju og Önnu Hafþórsdóttur leikkonu en þær fóru á kostum á samfélagsmiðlum í karakter sem ástríðufullar áhugakonur um útlit og líkamsrækt.

Greindist með æxli í lok árs

Bylgja flutti til Edinborgar í byrjun árs. Hún segist hafa átt nokkra erfiða mánuði í lok síðasta árs þegar hún brotnaði á báðum handleggjum. Tveimur dögum síðar lést vinkona hennar og mánuði seinna greindist hún með æxli í leghálsi. „Þegar ég komst að því að það var góðkynja og eftir að það var sótt hugsaði ég: Æi, heyrðu. Nú flyt ég.“ Hún keypti sér miða í framhaldinu aðra leið til Edinborgar. Bylgja er í dag undir eftirliti lækna í Edinborg en æxlið hefur ekki látið á sér kræla á ný. „Það sparkar í rassgatið á manni að fá smá cancer-scare,“ segir hún.

Aðspurð segir hún að töluverð líkindi séu milli Reykjavíkur og Edinborgar. „Já. Edinborg er lítil á alþjóðaskalanum og maður er rosa fljótur að kynnast fólki. Svo er hægt að labba allt líka,“ segir Bylgja. „Eins og Ísland - bara betra veður,“ bætir hún við glettin.

Subbu fullar á Prikinu

Bylgja og Snjólaug Lúðvíksdóttir standa um þessar mundir fyrir sýningunni Something Icelandic á klúbbi í Edinborg. „Snjólaug var búin að vera í London í fjögur ár að fikta við uppistand og flutti svo heim. Hún frétti að það væri einhver ný stelpa á senunni heima líka og beisiklí bauð mér á deit,“ segir Bylgja aðspurð um hvernig leiðir þeirra lágu saman. „Við hittumst á Prikinu, fengum okkur að borða og urðum subbu fullar. Höfum svo bara verið að gera það síðan.“

Mynd með færslu
 Mynd: Amy Lou - Einkasafn
Bylgja að troða upp á The Stand.

Aðsóknin hefur verið vonum framar en fimmtu sýningu var að ljúka og í öll skiptin hafa þær sýnt fyrir fullum sal. „Alltaf fullur salur og við þurfum að vísa fólki frá sem er ekki það sem við bjuggumst við. Við vorum að búa okkur andlega undir að þurfa að koma fram fyrir fjórar manneskjur,“ segir hún og bætir við: „Þetta er lúxus-vandamál.“ Hún segir að það sem hafi síðan komið þeim mest á óvart sé að á hverri einustu sýningu hafi verið hjón um áttrætt í salnum.

Píkur, kúkur og hárvöxtur á brjóstum

Ekki er selt inn á uppistandið heldur er frítt inn og því eru þær með fötu í salnum sem gengur á milli þar sem fólk getur látið af hendi frjáls framlög. Hvað varðar íslenska áhorfendur segir Bylgja: „Allir ættu náttúrulega að kaupa miða til Edinborgar. Við erum bara með okkar sýningu til 14. ágúst en það er nægur tími!“

Hún bætir við að húmorinn þar sé dæmigerður breskur húmor. „Alveg eins kaldhæðinn og skemmtilegur og heima,“ segir hún. Aðspurð um efni uppistandsins svarar hún síðan: „Við erum bara að tala um allt þetta venjulega: píkur, kúk, hárvöxt á brjóstum og muninn á Íslandi og Skotlandi.“

Tengdar fréttir

Menningarefni

Netflix bjóða Aziz áframhaldandi samstarf

Sjónvarp

Fullkomið uppistand á #metoo-tímum

Menningarefni

Ari leiddi víkingaklapp í Mock The Week

Sjónvarp

Margt fyndið sem gerist þegar maður veikist