Elsti ökumaðurinn fæddur 1912

Mynd með færslu
 Mynd:

Elsti ökumaðurinn fæddur 1912

10.10.2014 - 17:13
Elsti ökumaður landsins er 102 ára Kópavogsbúi. Ellefu einstaklingar, 96 ára og eldri, eru með gilt ökuskírteini og ökumenn sem eru orðnir níræðir eru á þriðja hundraðið.

Elsti landsmaðurinn sem er með gilt ökuskírteini er fæddur árið 1912. Þetta kemur fram í upplýsingum sem lögreglan hefur tekið saman. Eftir áttrætt þarf fólk að endurnýja ökuskírteinið árlega. Nú eru 4.500 ökumenn yfir áttræðu með gilt ökuskírteini og 266 sem eru orðnir níræðir eða eldri. Ellefu elstu handhafar gildra ökuskírteina fæddust áður en Ísland fékk fullveldi, árið 1918 eða fyrr.

Sá elsti er 102 ár og býr í Kópavogi. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var til þess tekið hversu ern og skemmtilegur þessi elsti ökumaður landsins væri - og með allt á hreinu - síðast þegar hann endurnýjaði ökuskírteinið. Aðeins tveir bílar höfðu verið fluttir til landsins þegar viðkomandi fæddist og báðir höfðu verið seldir aftur til útlanda vegna þess hversu illa þeir reyndust áður en elsti ökumaðurinn varð eins árs.

Næst elsti bílstjóri landsins er 101 árs og býr í Fjarðabyggð. Næst koma Reykvíkingur og Dalvíkingur sem halda upp á hundrað ára afmælið á næsta afmælisdegi sínum.