Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Elsku þú

27.01.2014 - 12:03
Mynd með færslu
 Mynd:

Vignir Snær Vigfússon – flytjandi og höfundur lags

Vignir Snær er 34 ára og býr í Reykjavík með eiginkonu sinni, Þorbjörgu Sæmundsdóttur, og þremur sonum.

Vignir hefur komið víða við í íslensku tónlistarlífi, spilað í leikritum og söngleikjum og verið tónlistarstjóri í ýmsum sýningum og sjónvarpsþáttum. Hann lauk áttunda stigi á klassískan gítar árið 2000 en lærði einnig á píanó. Vignir ólst upp á Kirkjubæjarklaustri, sem hann kallar nafla alheimsins, og byrjaði aðeins 11 ára gamall að spila með bílskúrsböndum. Hann stofnaði hljómsveitina Írafár með nokkrum vinum sínum  1998 og starfaði sú sveit í sjö ár. Þar var hann gítarleikari og annar aðalsöngvarinn og samdi auk þess öll lög sveitarinnar sem gaf út þrjár plötur sem seldust í um 40.000 eintökum. Hann starfar sjálfstætt við upptökustjórn og hefur á síðustu tíu árum komið að upptökum fjölmargra laga og platna. Vignir Snær hefur áður komið við sögu í Söngvakeppninni, sem flytjandi, upptökustjóri, útsetjari og lagahöfundur.

Lagið Elsku þú fjallar um mann sem nær ekki utan um það hvað konan í lífi hans er ótrúleg, og segist Vignir auðvitað tengja það við samband sitt og konunnar í lífi sínu.

Þórunn Erna Clausen – höfundur texta

Þórunn er fædd í Reykjavík árið 1975 og ólst upp í Garðabæ þar sem hún býr nú. Hún er ekkja, á kærasta og segist rík þegar kemur að börnum, með syni sína tvo og fimm yndisleg stjúpbörn.

Þórunn útskrifaðist sem leikkona frá Webber Douglas Academy í London 2001 og hefur á ferlinum lengst af starfað við Þjóðleikhúsið. Þar hefur hún meðal annars tekið þátt í sýningunum Þetta er allt að koma, Sitji guðs englar og Syngjandi í rigningunni. Þórunn hefur einnig fengist við fjölmörg hlutverk í útvarpsleikhúsi, talsetningu teiknimynda, leikstjórn, leikið með Vesturporti og ýmislegt fleira. Hún starfar nú meðal annars sem útvarpsmaður og stundar söngnám í Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn. Hún hefur lítinn tíma fyrir hestamennskuna sem er aðaláhugamál hennar, en nýtir þó hvert tækifæri sem gefst til að fara á bak. Þórunn segir Vigni Snæ mikið sjarmatröll, snilling og sjúklega fyndinn fagmann. Þau hafa verið vinir lengi og unnið töluvert saman, meðal annars að laginu Aftur heim. Lagið var þýtt á ensku sem Coming home og fór fyrir hönd Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2011. Þórunn samdi einmitt textann við það lag, sem Vignir flutti ásamt félögum sínum í Vinum Sjonna í Düsseldorf.

Þórunni finnst langbest að leyfa fólki að skilja söngtexta með sínum hætti en finnst textinn í laginu Elsku þú endurspegla það að lífið er gleðilegt og skemmtilegt og að við eigum að kunna að meta þá sem láta okkur líða vel.

 

Elsku þú

Ó, ó, ó, ó, ó
Ó, ó, ó, ó, ó

Ef ætti ég að velja einhvern dag
sem innihéldi einstakt andartak,
þá rifjast upp blóðrautt sólarlag,
við nutum saman litafegurðar

Ég finn hjarta mitt lifna aftur við
Sem betur fer, er það ég sem fæ að
vera þér við hlið

Hér ert þú, elsku þú,

ég mun aldrei ná að skilja hversu
ótrúleg þú ert

Hjá mér ert þú, elsku þú,
ég mun aldrei ná að skilja hversu
yndisleg þú ert

Er lífið hefur látið reyna á
við löngum höfum staðið saman þá.
Dettur ekkert dýrmætar’í hug

en að deila með þér hinsta áratug

Ég finn hjarta mitt lifna aftur við
Sem betur fer, er það ég sem fæ að
vera þér við hlið

Hér ert þú, elsku þú ...

Ó, ó, ó, ó, ó
Ó, ó, ó, ó, ó – Hve ótrúleg þú ert
Ó, ó, ó, ó, ó

Hér ert þú, elsku þú ...

Hér ert þú, elsku þú,

ég mun aldrei ná að skilja hversu
ótrúleg þú ert

Hér ert þú, elsku þú

Ég mun aldrei vilja aðra en þig