Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ellilífeyrisþegi með 25 kíló af marijúana

Úr umfjöllun Kveiks um kannabis.
Mynd úr safni.  Mynd: Kveikur - RÚV
Karlmaður á sjötugsaldri hefur verið ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot. Hann er í ákæru sagður hafa haft í vörslum sínum 340 kannabisplöntur, 11,5 kíló af kannabislaufum, 5,6 kíló af kannabisstönglum og 25 kíló af marijúana. Lögreglan fann fíkniefnin í ágúst fyrir tveimur árum í húsnæði við Kársnesbraut í Kópavogi.

Ákæran verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í dag.

Í henni er þess krafist að fíkniefnin verði gerð upptæk en líka 67 gróðurhúslampar, 77 spennugjafar, 19 loftblásarar, 17 loftsíur, 23 viftur, 2 rafmagnssnúrur og ein snúningsskurðvél. Manninum er gefið að sök að hafa ætlað að selja og dreifa fíkniefnunum. 

Lögreglan upprætti nýverið umfangsmikla kannabisræktun í Þykkvabæ. Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn, sagði hana eina þá umfangsmestu sem lögreglan hefði séð. Þar var lagt hald á 322 kannabisplöntur, 16 kíló af kannabislaufum og sjö milljónir í reiðufé.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV